Átján starfsmenn nýútskrifaðir leikskólakennarar

Átján starfsmenn í leikskólum Reykjavíkur hafa útskrifast sem leikskólakennarar frá því í október í fyrra sem er afar mikilvægt fyrir fagstarf í leikskólum borgarinnar. Starfsfólk fagskrifstofu leikskólamála á skóla- og frístundasviði fagnaði starfsfólkinu í gær, þann 18. júní, og bauð upp á léttar veitingar.
Hafa stundað nám meðfram vinnu
Öll hafa þau stundað nám í leikskólakennarafræðum samhliða vinnu hjá Reykjavíkurborg og hafa verið studd með námsleyfum af hálfu borgarinnar. Þau munu án efa hafa mikil áhrif á fagstarf leikskólanna, núna sem og til framtíðar litið. Þau útskrifuðust í október 2024 og febrúar og júní 2025.
Námsleyfi ýta undir fagmenntun
Sú stefna Reykjavíkurborgar að veita starfsfólki sem stundar kennaranám námsleyfi styður við fjölgun fagmenntaðra leikskólakennara. Námsleyfið felur í sér að starfsfólk getur verið fjarri vinnu vegna skólasóknar eða vettvangsnáms í allt að 35 daga á skólaárinu. Hver starfsmaður sækir um námsleyfið í samvinnu við sinn leikskólastjóra.
Skóla- og frístundasvið óskar nýútskrifuðum leikskólakennurum innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með þeim í störfum í framtíðinni.

