Áramótin í Reykjavík

Áramótabrenna við Ægisíðu í Reykjavík
Áramótabrenna við Ægisíðu í Reykjavík

Alls verða haldnar tíu áramótabrennur í Reykjavík á gamlárskvöld.

Umsjón með þeim er ýmist á hendi borgarinnar eða félagasamtaka, sem huga vel að því sem sett er á brennurnar og tryggja að frágangur og vöktun sé í lagi. Fyrir hádegi á gamlársdag er veðurspá skoðuð og ákvörðun tekin um hvort það megi tendra um kvöldið. Brennur eru ekki tendraðar ef vindhraði fer yfir 10 m/s.

  • Við Ægisíðu, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 48-52, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna, kl. 20:30
  • Laugardalur, fyrir neðan Laugarásveg 18, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Geirsnef, á norðanverðu Geirsnefi, stór brenna, klukkan 20:30
  • Við Stekkjarbakka, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Við Rauðavatn að norðanverðu, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Gufunes við Gufunesbæ, stór brenna, klukkan 20:30
  • Við Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna, klukkan 20:30
  • Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna klukkan 20:30

Staðsetningar á brennum í Borgarvefsjá

Vakin er athygli á því að óheimilt er að vera með flugelda og skotblys við brennur en leyfilegt að vera með stjörnuljós og blys önnur en skotblys. 
Mælt er með fólk komi gangandi að brennum sem verða en skert aðgengi er fyrir akandi að brennunum.

Svifryksmengun líklega yfir heilsuverndarmörkum 

Sterkar líkur eru á svifryksmengun síðustu klukkustundir 2025 og fyrstu klukkustundir ársins 2026 vegna mengunar frá flugeldum og búast má við því að styrkurinn geti verið hár fram eftir nóttu á nýársdag.

Svifryksmengun vegna flugelda er bæði varasöm og heilsuspillandi en á undanförnum árum hafa verið flutt inn um 600 tonn af skoteldum á hverju ár.

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum og dýrum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Hægt er að draga úr fjölda flugelda með því að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Fyrir rótarskotin gróðursetur skógræktarfélagið trjáplöntur um land allt næsta sumar sem stuðlar að betri loftgæðum og dregur úr gróðurhúsaáhrifum.

Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast er fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum.  

Loftgæðamælistöðvar sem mæla svifryk í Reykjavík eru staðsettar við Grensásveg, Olís Álfabakka, í Laugarnesi og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á Loftgæði.is 

Samkvæmt veðurspá verður hægur vindur seinni part gamlársdags og á nýársnótt, á bilinu 2-3 m/s og ekki gert ráð fyrir úrkomu samkvæmt veðurspá. Veðurþættir eins og vindur og úrkoma hafa áhrif á mengun en við þær veðuraðstæður sem spáð er verða líkur á að mengun verði meiri og standi lengur.

Gámar fyrir flugeldaleifar

Flugeldum fylgir rusl, sem þarf að koma á réttan stað. Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á gáma fyrir flugeldarusl á tíu grenndarstöðvum um alla borg.

Gámarnir verða settir upp dagana fyrir gamlársdag svo þeir verða klárir til þess að taka á móti flugeldaruslinu á nýársdag. Frá og með 2. janúar verður tekið á móti flugeldaleifum á endurvinnslustöðvum Sorpu á hefðbundnum opnunartíma. Sem fyrr fara ósprungnir flugeldar í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Staðsetningarnar eru eftirfarandi: 

  • Vesturbær – grenndarstöð við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug)
  • Miðborg -  grenndarstöð Eiríksgötu (við Hallgrímskirkju)
  • Hlíðar - grenndarstöð við Flókagötu (Kjarvalstaði)
  • Laugardalur - grenndarstöð við Sundlaugaveg (Laugardalslaug)
  • Háaleiti-Bústaðir - grenndarstöð við Sogaveg
  • Breiðholt – grenndarstöð við Austurberg
  • Árbær/Selás – grenndarstöð við Selásbraut
  • Grafarvogur – grenndarstöð í Spöng
  • Grafarholt-Úlfarsárdalur – grenndarstöð Þjóðhildarstíg (við Krónuna)
  • Kjalarnes – við grenndarstöð

Staðsetningar gáma fyrir flugeldarusl í Borgarvefsjá