Ánægjulegir hverfadagar í Breiðholti
Hverfadagar Heiðu Bjargar í Breiðholti stóðu yfir dagana 29. september til 3. október síðastliðinn. Borgarstjóri fór vítt og breitt um hverfið, tók íbúa tali og heimsótti ýmsar stofnanir.
Heiða Björg borgarstjóri átti fundi með með stjórnendum velferðarsviðs og skóla-og frístundasviðs í Breiðholti.
Þá lá leið Heiðu Bjargar í Breiðholtslaug til að hitta kaffihóp sem þar hittist reglulega. Laugin spilar stórt hlutverk í hverfisandanum í Breiðholti og er mikilvægur hlekkur í þjónustu við íbúa. Í Breiðholtslaug er bæði inni og útilaug og rennibrautir. Þá má nefna að saunaklefarnir hlutu viðurkenningu frá finnska sendiráðinu sem besta sauna í borginni.
Heiðu Björgu var boðið í vöfflukaffi til íbúanna í Árskógum og var engu til sparað í veitingum.
Farið var í heimsókn í Hólabrekkuskóla og leikskólann Hálsaskóg þar sem heildarendurnýjun húsnæðisins er nú á lokametrunum. Gerðuberg var heimsótt en þar var líf og fjör enda eldri borgarar að spila félagsvist og ræða mál líðandi stundar. Heiða Björg fór svo og kynnti sér starfið hjá íþróttafélögunum ÍR og Leikni.
Síðdegis þann 1. október var gestum og gangandi boðið upp á kaffi og spjall í Mjóddinni þar sem tækifæri gafst til að spjalla um hverfið. Að loknu kaffispjalli var gengið um Mjóddina með Samfélagslöggunni og Flotanum. Heiða Björg átti einnig góðan fund með ungmennum í Breiðholti og fékk að vita hvað þeim lá á hjarta.
Borgarstjóri heimsótti ennfremur hverfastöðina í Jafnaseli og skoðaði framkvæmdir sem eru í gangi vegna Vetrargarðs. Þá endaði Heiða Björg daginn á fundi með stjórnendum foreldrafélaga í Breiðholti.
Takk fyrir móttökurnar!