Ágúst Ólafur Ágústsson nýr aðstoðarmaður borgarstjóra

Ágúst Ólafur Ágústsson

Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra.

Ágúst Ólafur er fyrrverandi alþingismaður og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. Þá sat hann í bankaráði Seðlabanka Íslands í fjögur ár og gegndi meðal annars formennsku í viðskiptanefnd Alþingis, Evrópunefnd forsætisráðherra og í framkvæmdasjóði aldraða. 

Hann vann sem sérfræðingur á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York og hefur að undanförnu stundað doktorsnám í opinberri stjórnsýslu. Samhliða hefur hann kennt við Háskóla Íslands ásamt því að sinna ráðgjafarstörfum meðal annars fyrir Sjúkraliðafélag Íslands, Rannsóknarsetur skapandi greina og Ljósið. 

Ágúst er menntaður lögfræðingur, hagfræðingur og stjórnsýslufræðingur og á sæti í stjórn Dýraverndarsambands Íslands og Evrópuhreyfingarinnar.

Ágúst er kvæntur Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur, tannlækni og fyrrverandi formanni Tannlæknafélags Íslands. 

Ágúst Ólafur hefur störf á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 13. júní næstkomandi.

Katrín M. Guðjónsdóttir hefur beðist lausnar frá starfi.