Aðgengilegri gróðurkassar komnir í notkun

Gróðurkassar við samfélagshúsið Vitatorgi sem tryggja aðgengi fyrir alla
Gróðurkassar sem hannaðir eru til að tryggja aðgengi fyrir alla.

Gróðurkassarnir eru við sjö samfélagshús. Þeir eru upphækkaður og henta fyrir öll, fólki sem notar hjólastóla, göngugrindur eða fólki sem á erfitt með að vinna á hnjánum.  

Kynning fór fram á aðgengilegum gróðurkössum í samfélagshúsinu á Vitatorgi í gær.  Þær Björk Þorleifsdóttir og Svanhildur Björk Sigfúsdóttir frá Grasagarðinum í Laugardal komu við á Vitatorgi og voru með fræðslu um hvernig er best að bera sig að við gróðursetningu matjurta í gróðurkassa. 

Nú í vor voru smíðaðir fleiri kassar sem fóru m.a. í nýjan matjurtargarð í Hlíðunum sem var kosinn til framkvæmda í verkefninu Hverfið mitt. Síðasta sumar var unnið að frumgerð á kassanum og hann settur upp í Grasagarðinum. 

Gróðurkassar til að standa eða sitja við.
Gróðurkassarnir til að standa eða sitja við.

Kassarnir eru upphækkaðir og þannig útfærðir að hægt er að standa eða sitja við þá. Þeir henta því vel fyrir fólk sem notar hjólastóla, göngugrindur eða á erfitt með að vinna á hnjánum.

Falleg blóm og gróður auka vellíðan og andlega heilsu og það er fátt betra en að gleyma sér við gróðursetningu og fjöldi fólks mætt á Vitatorg til að njóta. 

Einfalt og þægilegt að vinna við kassana.
Einfalt og þægilegt að vinna við kassana.

Hönnun og smíði á aðgengilegum matjurtarkössum er samstarfsverkefni á milli verkefnisins Hverfið mitt og aðgengisfulltrúa Reykjavíkur. Um er að ræða samstarfsverkefni á milli Hverfið mitt og aðgengisfulltrúa Reykjavíkur. Í Reykjavík er í gildi aðgengisstefna sem samþykkt var í borgarstjórn árið 2022. Aðgengisstefnan byggir á hugmyndafræði um algilda hönnun. 

Reykjavíkurborg hefur komið slíkum kössum fyrir í sjö samfélagshúsum:  

  • Tveir fóru á Vitatorg
  • Tveir fóru á Dalbraut
  • Tveir fóru í Lönguhlíð
  • Tveir fóru í Bólstaðahlíð
  • Einn fór í Hvassaleiti
  • Einn fór í Hæðargarð
  • Einn fór í Hraunbæ

Kassinn var hannaður af Ragnhildi Skarphéðinsdóttur og Svövu Ragnarsdóttur hjá Hornsteinum Arkitektum og um smíðina sá Kúnstverk.is