Aðgengi að strætóskýlum bætt í sumar

Síðustu ár hafa staðið yfir framkvæmdir á biðstöðvum Strætó í Reykjavík en alls hafa 70 strætóstöðvar verið endurgerðar með tilliti til aðgengis fyrir öll.
Alls munu 148 biðstöðvar fara í hönnun á þessu ári og í sumar verður ráðist í framkvæmdir við 25 stöðvar þar sem áhersla er lögð á öryggi, aðgengi og þægindi fyrir alla vegfarendur, ekki síst fatlað fólk og aðra með fjölbreyttar þarfir.
Verkefnið byggir á úttekt um aðgengi fyrir öll sem gerð var árið 2023 og markmiðið er að stöðvarnar standist nútímakröfur um algilda hönnun. Um er að ræða markvissar aðgerðir sem miða að því að bæta daglegar ferðir fólks um borgina með almenningssamgöngum.
Helstu aðgerðir sem ráðist verður í:
- Hækkaðir kantsteinar til að auðvelda aðgengi að strætó
- Gerð leiðarlína og viðvörunarlína fyrir blinda og sjónskerta
- Endurbætur á yfirborði og gönguþverunum við stöðvar
- Bætt tenging við stíga og gangstéttir fyrir öruggari umferð
- Bekkir settir þar sem skýli eru ekki til staðar
- Skýli endurnýjuð þar sem þörf er á
Stöðvar sem teknar verða í gegn í sumar eru:
- Sundlaugarveg/Laugarásveg
Sæbraut/Sund
Þrjú skýli við Skeiðarvog
Tvö skýli við Bústaðaveg - Þrjú skýli við Háaleitisbraut
- Tvö skýli við Arnarbakka
- Skógarsel
- Fimm skýli við Norðurfell
- Tvö skýli við Suðurhóla
- Tvö skýli við Fjallkonuveg
- Tvö skýli við Víkurveg
- Hofsgrund
Eldri frétt um betra aðgengi á strætóstöðvum
Kynning um framkvæmdirnar