Stór ESB styrkur til að bæta vatnsgæði í Vatnsmýri og Tjörninni
Reykjavíkurborg hefur hlotið ríflega 150 milljón kr. styrk úr LIFE áætlun Evrópusambandsins til þess að bæta vatnsgæði í Vatnsmýrinni og Tjörninni.
Markmiðið verkefnisins er að skoða betur efnafræðilegt ástand svæðisins og leita að uppruna mengunar. Á grundvelli þeirra upplýsinga verða skipulagðar aðgerðir til þess að draga úr mengun og fyrirbyggja frekari mengun þrátt fyrir fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.
Styrkur til borgarinnar er hluti af 3,5 milljarða kr. styrk sem Umhverfisstofnun hlaut úr LIFE áætluninni og er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu Vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið ber yfirskriftina LIFE ICEWATER og er styrkurinn einn sá stærsti sem íslenskt verkefni hefur fengið frá Evrópusambandinu. Styrkurinn dreifist á 22 innlenda aðila til 6 ára og gefast með honum tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslu með þverfaglegu samstarfi margra aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land.
Samtals hlutu Reykjavíkurborg og B-hluta stofnanirnar Orkuveitan, Veitur og Orka náttúrunnar um hálfan milljarð kr. í styrk úr LIFE-ICEWATER.
Vatnasvið Tjarnarinnar nær yfir stórt svæði.
Tengt efni:
Skoða frétt á vef Umhverfisstofnunar: 3,5 milljarða styrkur til að tryggja vatnsgæði á Íslandi