Reykjavíkurborg hlaut alþjóðleg verðlaun fyrir umbreytingu á skólaþjónustu

Skóli og frístund

Hópurinn sem stendur að verkefninu Betri borg fyrir börn hefur lyft grettistaki við umbreytingu á skólaþjónustu. Róbert Reynisson
Hópmynd í Ráðhúsinu, starfsfólk á bak við Betri borg fyrir börn með verðlaunagripinn fyrir Seoul Smart City verðlaunin. Borgarstjóri Einar Þorsteinsson með hópnum.

Reykjavíkurborg hlaut nýlega gullverðlaun alþjóðlegu verðlaunanna Seoul Smart City Prize 2024, í flokknum Tech InnovaCity, fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn. Verðlaunin voru veitt fyrir frumlega og áhrifaríka stafræna umbreytingu sem hefur skilað betri og skilvirkari þjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi.

Verkefnið Betri borg fyrir börn snýst um bætta þjónustu; að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna- og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöðvum hverfanna.

Alexandra Briem á sviði í Seoul að veita viðtöku Smart City Awards. Maður afhendir henni verðlaun og á bakvið þau stendur Tech-InnovaCity GOLD Reykjavík

Alexandra Briem, borgarfulltrúi og formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, veitti verðlaununum móttöku í Seoul.

Þjónustan undir formerkjum Betri borg fyrir börn er þegar komin í notkun og allar umsóknir fara nú fram í gegnum stafrænt ferli á reykjavik.is. Stafrænar lausnir verkefnisins eru í stöðugri þróun, og einn af lykilþáttum þess, stafræn persónumappa barns, verður innleidd í fyrstu skólum borgarinnar í janúar 2025. Nýtt vinnulag hefur þegar sýnt fram á gildi sitt við úrlausn flókinna mála sem tengjast velferð barna og ungmenna borgarinnar. Verkefnið byggir meðal annars á farsældarlögunum, sem leggja áherslu á skýrt viðbragð og samstarf þegar velferð barna er í húfi.

Starfsfólk lyft grettistaki

Í rökstuðningi dómnefndar vegna Smart City verðlaunanna kom fram að þjónustubreyting með nýju kerfi hafi einfaldað umsóknarferli, tryggt öruggt flæði upplýsinga og bætt samskipti milli foreldra, kennara og sérfræðinga. Pappírsumsóknum hefur verið skipt út fyrir stafrænar lausnir, auk þess sem lausnarteymi vinna nú með snemmtæka íhlutun á vettvangi barnsins. Þetta hefur í heild sinni leitt til skilvirkari og betri þjónustu.

Yfir 220 umsóknir um verðlaunin bárust frá 54 löndum um allan heim. Alexandra Briem, borgarfulltrúi og formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, veitti verðlaununum móttöku í Seoul. Var árangrinum síðan fagnað í Ráðhúsinu í gær og starfsfólki færðar þakkir, en hópurinn sem stendur að verkefninu hefur lyft grettistaki við umbreytingu á skólaþjónustu. 

Seoul Smart City Prize 2024.

Verðlaunagripur og viðurkenningarskjal uppstillt á borði, Seoul Smart City verðlaunin fyrir Betri borg fyrir börn

Yfir 220 umsóknir um verðlaunin bárust frá 54 löndum um allan heim.