Starf skrifstofustjóra menningarborgar á menningar- og íþróttasviði var auglýst í október síðastliðnum. Alls bárust 30 umsóknir um starfið. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir (Adda Rúna) hefur verið ráðin í starfið og hóf hún störf fyrsta mars.
Adda Rúna hefur starfað sem sérfræðingur hjá Stjórnarráði Íslands síðustu 11 ár, fyrst á skrifstofu menningar og fjölmiðla í mennta og menningarmálaráðuneytinu og síðar hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Hún hefur víðtæka og fjölbreytta reynslu af menningarmálum, auk þess sem hún hefur góða þekkingu á og reynslu af opinberri stjórnsýslu.
Í störfum sínum hjá ráðuneytunum hefur Adda Rúna meðal annars stýrt ýmsum menningarverkefnum innanlands sem utan. Hún innleiddi til dæmis Biophilia verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur á öllum Norðurlöndunum og var annar tveggja verkefnastjóra Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem haldin voru á Íslandi 2022.
Áður en Adda Rúna hóf störf hjá Stjórnarráði Íslands var hún sérfræðingur bæði á íþrótta- og tómstundasviði og menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar en sviðin voru sameinuð á síðasta ári í nýtt svið menningar og íþrótta.
„Ég er mjög ánægður með að fá Öddu Rúnu til liðs við þann öfluga hóp starfsfólks sem starfar á menningar- og íþróttasviði borgarinnar. Reynsla hennar og menntun mun nýtast vel í þeim verkefnum sem hún mun sinna. Við hlökkum til samstarfsins,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar.