Gleðilegan kjördag
Forsetakjör fer fram í dag laugardaginn 1. júní 2024. 25 kjörstaðir hafa nú opnað dyr sínar í Reykjavík í forsetakjöri 2024.
Á kjörskrá í Reykjavík eru 94.658 einstaklingar. Í Reykjavíkurkjördæmi norður eru 47.662 og í Reykjavíkurkjördæmi suður eru 46.996. Kjörstöðum lokar klukkan 22:00 og hefst þá talning atkvæða. Streymt verður frá talningunni á vef Reykjavíkurborgar. Búist er við fyrstu tölum úr Reykjavíkurkjördæmi milli klukkan 23:30 og 00:00.
Muna eftir skilríkjum
Kjósendur gera grein fyrir sér á kjörstað með því að framvísa skilríkjum. Greiðslukort og skilríki með mynd og kennitölu teljast fullgild. Kjósandi sem mætir skilríkjalaus á kjörstað getur leitað til hverfiskjörstjórnar og fengið aðstoð við að láta sannreyna hver hann er.
Aðsetur yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæmis norður og suður verður í Ráðhúsi Reykjavíkur á kjörfundi.
Allar upplýsingar varðandi kosningar í Reykjavíkurborg eru veittar í síma 411-4915 og á netfanginu kosningar@reykjavik.is.
Nánar: reykjavik.is/kosningar