Gleðileg úrgangsjól

Sorphirða

Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá Sorphirðu Reykjavíkur og einnig eru grenndarstöðvar mikið notaðar á þessum árstíma. Mynd/Róbert Reynisson
Sorphirðustarfsmaður í gulum galla við tunnu og sorphirðubíl.

Sorphirða hefur gengið vel að undanförnu þrátt fyrir aukið magn úrgangs. Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá Sorphirðu Reykjavíkur og einnig eru grenndarstöðvar mikið notaðar á þessum árstíma. Það er því gott að hafa í huga til að allt gangi vel fyrir sig að flokka vel allan úrgang og nýta plássið í tunnunum vel. Boðið verður upp á sérstaka gáma fyrir flugeldarusl eftir áramótin á tíu stöðum í borginni.

Þjónusta sorphirðu yfir jól og áramót

Starfsfólk sorphirðunnar verður aukalega að störfum laugardaginn 21. desember en síðasti vinnudagur fyrir jól er 23. desember. Vinna hefst aftur á þriðja í jólum og einnig verður unnið helgina þar á eftir, 28. og 29. desember. Sorphirðan verður að störfum 30. desember og á gamlársdag verður unnið til klukkan 10.30. Sorphirða hefst aftur á nýju ári þann 2. janúar en einnig verður unnið laugardaginn 4. janúar.

Þjónusta á grenndarstöðvum um jólin

Notkun á grenndar- og endurvinnslustöðvum Sorpu eykst jafnan á þessum árstíma. Búið er að skipuleggja aukavaktir í kringum hátíðirnar. Áhersla verður lögð á að tæma gámana fyrir pappír og plast reglulega þar sem þessir flokkar eru líklegastir til að safnast upp í kringum þessa miklu gjafahátíð.

Gámar fyrir pappír og plast eru nú staðsettir á öllum stærri grenndarstöðvum. Minnum líka á að með nýja flokkunarkerfinu hófst söfnun á glerumbúðum og málmum í grenndargámakerfinu. Gáma fyrir þessa flokka má finna á öllum grenndarstöðvum höfuðborgarsvæðisins en kort yfir þær er hægt að skoða á vef Sorpu.

Gámar fyrir flugeldaleifar

Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á gáma fyrir flugeldarusl á tíu grenndarstöðvum um alla borg. Gámarnir verða settir upp dagana fyrir gamlársdag svo þeir verða klárir til þess að taka á móti flugeldaruslinu á nýársdag. Frá og með 2. janúar verður tekið á móti flugeldaleifum á endurvinnslustöðvum Sorpu á hefðbundnum opnunartíma. Sem fyrr fara ósprungnir flugeldar fara í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Staðsetningarnar eru þessar:

  1. Vesturbær – grenndarstöð við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug)
  2. Miðborg -  grenndarstöð Eiríksgötu (við Hallgrímskirkju)
  3. Hlíðar - grenndarstöð við Flókagötu (Kjarvalstaði)
  4. Laugardalur - grenndarstöð við Sundlaugaveg (Laugardalslaug)
  5. Háaleiti-Bústaðir - grenndarstöð við Sogaveg
  6. Breiðholt – grenndarstöð við Austurberg
  7. Árbær/Selás – grenndarstöð við Selásbraut
  8. Grafarvogur – grenndarstöð í Spöng
  9. Grafarholt-Úlfarsárdalur – grenndarstöð Þjóðhildarstíg (við Krónuna)
  10. Kjalarnes – við grenndarstöð