Opnað hefur verið fyrir umsóknir um aukalega niðurgreiðslur til foreldra barna sem eru 18 mánaða og eldri og eru hjá dagforeldrum. Breytingin var samþykkt í borgarráði í desember 2023.
Samkvæmt nýrri gjaldskrá er miðað við að foreldrar greiði sama gjald og í leikskóla fyrir 18 mánaða og eldri. Á móti hækkar niðurgreiðsla Reykjavíkurborgar til dagforeldra vegna þeirra barna en þó upp að ákveðnu hámarki, sem er breytilegt eftir dvalarstundum viðkomandi barns. Sem dæmi má nefna að hjón og sambúðarfólk greiða sama gjald fyrir barn sem dvelur í 8 stundir á dag hjá dagforeldri og fyrir leikskólabarn sem er með sama dvalartíma, eða 34.053 krónur á mánuði. Breytingin tekur gildi 1. febrúar 2024.
Foreldrar barna með lögheimili í Reykjavík sem urðu 18 mánaða á tímabilinu 1. júlí 2023 til 31. janúar 2024 geta sótt um aukalega niðurgreiðslu vegna vistunargjalda hjá dagforeldri aftur í tímann. Niðurgreiðslan miðar við það mánaðargjald dagforeldra sem greitt var, að frádregnu leikskólagjaldi fyrir sama dvalartíma en þó miðað við að mánaðargjald að hámarki 130 þús. krónur.
Hægt er að lesa meira um samþykktar breytingar í frétt sem birt var eftir fund borgarráðs.
Umsóknareyðublað fyrir niðurgreiðslu fyrir 18 mánaða og eldri hjá dagforeldrum.