
Fjöldi einstaklinga með hlutlausa kynskráningu tvöfaldaðist milli áranna 2022 og 2023. Þá hækkaði hlutfall innflytjenda af íbúafjölda í Reykjavík á tímabilinu 1996 til 2023 úr 2,6% í 25%. Þetta er meðal áhugaverðra upplýsinga sem fram koma í Kynlegum tölum sem nú hafa verið birtar á vef Reykjavíkurborgar.
Kynlegar tölur 2024 eru komnar út en um er að ræða upplýsingarit sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa gefur út til að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í Reykjavík og víðar. Í Kynlegum tölum má finna alls konar áhugaverða tölfræði og eru mismunandi þættir teknir fyrir til að beina sjónum að stöðu kynjanna og annarra hópa í samfélaginu, sem oft gefur tilefni til að skoða hvað býr að baki. Í ár var sjónum meðal annars beint að vinnumarkaði, kynbundnu ofbeldi, lýðheilsu og félags- og velferðarþjónustu. Upplýsingarnar hafa verið birtar árlega frá 2011 eða í fjórtán ár. Birting Kynlegra talna er hluti af markvissu jafnréttisstarfi borgarinnar í takt við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Meðalatvinnutekjur kvenna 85% af meðaltekjum karla
Í Kynlegum tölum 2024 kemur meðal annars fram að:
- Hæst hlutfall barna og ungmenna (0-19 ára) er í Grafarholti og Úlfarsárdal, en þar er tæplega þriðjungur íbúa á því aldursbili.
- Hæst hlutfall fólks á aldrinum 20-39 ára er í Miðborginni þar sem 46% íbúa eru á því aldursbili.
- Hæst hlutfall fólks 60 ára og eldri er í Háaleiti og Bústaðahverfi en þar eru 23% íbúa á því aldursbili.
- Árið 2022 voru meðalatvinnutekjur kvenna í Reykjavík 85% af meðaltekjum karla.
- Tæplega helmingur karlkyns hjúkrunarfræðinga starfandi á Landspítalanum eru af erlendum uppruna.
- Konur finna oftar fyrir streitu í daglegu lífi en karlar.
- Á 92 ára tímabili, frá 1932 til 2024, hafa fjórar konur gegnt embætti borgarstjóra Reykjavíkur í samanlagt tæplega 13 ár eða 14% tímans.
Ritið er á rafrænu formi og frekari upplýsingar veitir mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa. Hægt er að hafa samband gegnum tölvupóst á mannrettindi@reykjavik.is.
