Fellaskóli gaf þeim yngstu bók til að auka orðaforða nemenda

Skóli og frístund

Orð eru ævintýri

Fellaskóli gaf öllum börnum í 1. og 2 bekk bókina Orð eru ævintýri, myndaorðabók sem gefin var út fyrir nokkrum mánuðum. Bókin er fyrsta námsgagnið sem Menntamálastofnun gefur út fyrir leikskóla og ætlað að styðja við málþroska barna.

Tíminn í íslensku málumhverfi of stuttur

Starfsfólk Fellaskóla sá að bókin myndi nýtast vel í því fjölþjóðlega umhverfi sem skólinn er. „Bókin er mjög falleg og fjölbreyttur grunnorðaforði í henni. Hér í Fellaskóla er hátt í 90% nemenda tvítyngdir og þó margir séu fæddir hér á Íslandi þá er tími þeirra í íslensku málumhverfi of stuttur,“ segir Hlíf Brynja Baldursdóttir kennari og bætir við að það komi niður á orðaforða nemendanna.

Hvert barn fékk bók sem merktar voru með nafni þess. „Við ætlum að leyfa þeim að fara með bækurnar heim í vor. Við vildum ekki bara gefa þeim bókina og hún færi strax heim, heldur að þau væru búin að vinna eitthvað með bókina og kynnast henni hér áður,“ segir Brynja. 

Orð eru ævintýri

Hér í Fellaskóla er hátt í 90% nemenda tvítyngdir og þó margir séu fæddir hér á Íslandi þá er tími þeirra í íslensku málumhverfi of stuttur.

Hægt að nýta bókina á fjölbreyttan hátt

Brynja bendir á að hægt sé að vinna með bókina á fjölbreyttan hátt, til dæmis í svokallaðri hringekjuvinnu þar sem eru stöðvar þar sem kennari spyr opinna spurninga um ákveðin viðfangsefni og þá er áhersla lögð á að búa til heila setningar. Börnunum finnst líka gaman að finna litlu myndirnar sem eru til hliðar á stóru myndinni. „Ég veit að einn kennari var að velta fyrir sér hvort að hann ættu að láta nemendur skrifa þýðingu inn í bókina – skrifa sitt tungumál við myndirnar.“

Orð eru ævintýri

Fjör að finna Kúra

Það er mikið að gerast á hverri síðu og mörg barnanna eiga sína uppáhalds opnu í bókinni. „Bókin er björt og falleg. Myndirnar eru skýrar og mjög margt að gerast á stóru myndunum. Mörg börn eru búin að átta sig á að kötturinn Kúri er alls staðar;“ segir Brynja sem segir bókina frábært kennslugagn í grunnorðaforða fyrir fjöltyngd börn og öll börn.

Fá að fara heim með bókina í vor

Þegar bókin hefur verið nýtt vel í skólanum fram á vor stendur til að börnin fái að taka bókina með sér heim þar sem hún getur nýst allri fjölskyldunni. „Vonandi sjá foreldrar tækifæri í bókinni að læra íslensku með börnum sínum. Og okkar skoðun er að ef við erum búin að vinna jákvætt með bókina hér í skólanum þá séu meiri líkur á að börnin haldi áfram að lesa, skoða og spjalla um bókina heima.“

Bókin er fyrsta sinnar tegundar sem gerð er með íslenskum teikningum í íslenskum veruleika. Hún er einnig til á rafrænu og gagnvirku formi sem gefur börnum af erlendum uppruna tækifæri til að heyra íslenskan framburð og sjá orðið stafsett á sínu heimamáli.

Nánar má lesa um uppruna og gerð bókarinnar í frétt sem birtist af því tilefni.