Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 voru veittar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag, fimmtudaginn 14. nóvember.
Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar fyrir lóðir sem eru til fyrirmyndar og vandaðar endurbætur á eldri húsum.
Veittar voru viðurkenningar fyrir þrjár lóðir og þrjú hús. Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs veittu viðurkenningarnar. Reykjavíkurborg óskar lóðarhöfum innilega til hamingju.
Eftirfarandi þrjár lóðir hljóta viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarlóðir:
Krummahólar 2
Afar skemmtileg útfærsla á endurgerð á fjölbýlishúsalóð. Lóðin hefur sameiginleg dvalarsvæði fyrir íbúa og leiksvæði fyrir börn. Mikið er af blómum og fjölbreyttar tegundir gróðurs. Inn á milli gróðursins er að finna fjölmörg listaverk og garðurinn er sannkallaður ævintýragarður. Efniviður er endurnýttur innan lóðar og þar má finna meðal annars sand, steina og trjáboli sem skapa mikilvæg búsvæði fyrir smádýr. Útskorin fuglaböð og fuglahús eru meðal listaverka í garðinum en að auki eru listaverk á húsinu sjálfu sem prýða garðinn.
Lóðin tengist stígakerfi hverfisins og gleður almenning sem á leið hjá.
Háaleitisbraut 15-17
Viðhald á fjölbýlishúsalóð sem er til fyrirmyndar í alla staði. Upprunaleg hönnun hefur haldið sér frá upphafi. Lóðin er opin, skjólgóð, snýr í suður og nýtur dagsbirtu. Lóðinni í heild sinni er vel viðhaldið. Steinabeð sem leysir hæðamismun frá götu myndar skemmtilega aðkomu að lóðinni. Fjölbreyttum gróðri er gert hátt undir höfði í garðinum, gróðurinn er gróskumikill og hefur fengið góða umhirðu í gegnum áratugina. Grasflöt er slegin með slátturróbot, leik- og dvalarsvæði eru snyrtileg og eldri leiktækjum hefur verið haldið vel við og þau í góðu ástandi. Garðurinn er augljóslega notaður til dvalar og leikja. Nágrannar dást að garðinum og því fallega samfélagi sem hefur myndast í kringum umhirðu og leik.
Skálholtsstígur 7
Endurgerð á rótgróinni lóð sem er til fyrirmyndar. Í garðinum er komið fyrir torgi með listaverki og bekkjum. Haldið er í gamlan gróður ásamt því að bætt er við nýjum og fjölbreyttum gróðri. Efnisval og handbragð er vandað og náttúrusteinn er í fyrirrúmi sem passar staðsetningu lóðar einstaklega vel í sögulegu samhengi. Lóðin er opin og staðsett á áberandi stað í miðborginni. Garðurinn er prýði fyrir götuna og er afmarkaður með lágri girðingu sem leyfir vegfarendum sem þar ganga hjá að njóta.
Eftirfarandi þrjú hús hljóta viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum:
Álfheimar 56-60
Húsið var byggt árið 1960 eftir teikningum arkitektsins Sigvalda Thordarson. Það er hluti af skipulagsuppdrætti Gunnars Hanssonar og Gunnars Ólafssonar frá 1955 þar sem einkenni byggðarinnar voru blandaðar húsagerðir í módernískum stíl. Upprunalegt útlit hússins bar sterk einkenni Sigvalda, bæði formfræðilega og litalega, en undanfarin ár hefur það verið málað í öðrum litum. Nýlega var húsið tekið í gegn og hafa hin áberandi höfundareinkenni Sigvalda verið endurheimt með glæsilegri útkomu.
Langahlíð 19-25
„Lönguhlíðarblokkin“, eins og hún er gjarnan kölluð, var reist á árunum 1947-1949 eftir teikningum Einars Sveinssonar og Gunnars Ólafssonar. Húsið var liður í að mæta húsnæðisvandanum í kjölfar hernámsins og var á sínum tíma stærsta fjölbýlishús landsins. Sveigðar svalir setja svip sinn á húsið og mikil áhersla var lögð á góða dagsbirtu inn í íbúðirnar. Síðustu ár hafa staðið yfir endurbætur á húsinu sem hefur m.a. verið endursteinað, en málað hafði verið yfir steininguna. Þessi perla 5. áratugarins stendur á áberandi stað í borgarlandslaginu og mikill fjöldi fær því að njóta þeirra flottu breytinga sem gerðar hafa verið.
Skólabrú 2
Skólabrú 2 var reist árið 1912 eftir teikningum Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts. Húsið var teiknað fyrir Kristínu Guðmundsdóttir og Ólaf Þorsteinsson lækni, bæði sem íbúðarhús og lækningastofa. Stílfræðilega er það eitt elsta dæmið um íbúðarhús með sveigðum gaflbrúnum og hafði stílgerð þess mótandi áhrif á útlit steinsteyptra íbúðarhúsa á öðrum og þriðja áratug 20. aldar. Ásýnd hússins hafði tekið talsverðum breytingum í gegnum árin en undanfarið hafa staðið yfir miklar endurbætur með það að markmiði að færa það nær upprunalegri mynd. Nú eru veggir t.a.m. aftur sléttpússaðir og inndregið hæðarband á gaflinum hefur verið endurheimt. Útkoman er glæsileg.
Starfshópur
Í starfshóp sem gerði tillögu að viðurkenningum fyrir lóðir og hús árið 2024 voru:
Bjarki Þór Wíum, ráðgjafi í viðhaldi og viðgerðum eldri húsa fyrir hönd Borgarsögusafns, Hrönn Valdimarsdóttir landslagsarkitekt á umhverfis- og skipulagssviði, Marta María Jónsdóttir landslagsarkitekt á umhverfis- og skipulagssviði og Sólveig Sigurðardóttir arkitekt á umhverfis- og skipulagssviði.