Reykjavíkurborg tekur þátt í Stóra plokkdeginum 30. apríl. Tekið verður við ábendingum á sunnudaginn í síma 4118440. Einnig er gott að senda ábendingar um hvar ruslapoka er að finna á ábendingavef borgarinnar. Bílar á vegum borgarinnar verða á ferðinni til að sækja poka frá plokkurum.
Plokk á Íslandi stendur árlega fyrir Stóra-plokkdeginum og hefur gefið út leiðbeiningar á samfélagsmiðlum um hvernig best er að bera sig að.
Mikilvægt er að týna rusl í glæra plastpoka og loka pokunum svo ekki fjúki úr þeim. Gott er að vera með plokktangir eða vera í hönskum. Öryggisvesti eru ákjósanleg til að vera sýnileg. Öruggustu svæðin til að tína eru líklega í kringum íþróttavelli, skólalóðir og opin svæði. Girðingar í kringum þau taka oft töluvert af rusli til sín.
Best er að fara með pokana á endurvinnslustöðvar Sorpu sem opnar eru um helgina en lokað á mánudeginum 1. maí.
Reykjavíkurborg hefur árum saman staðið fyrir hreinsunarátaki á þessum árstíma, nú síðast undir nafninu Hreinsum saman, sem er sannarlega í anda plokksins og því kjörið að taka höndum saman með plokkstöngina á lofti.
Hreinsum saman á sunnudaginn og tökum þátt í að fegra borgina fyrir sumarið!
Þess má geta að vorhreinsun í húsagötum hefst í næstu viku.
#plokk #plokk2023