Dagur. B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík undirrituðu í dag endurnýjaðan styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.
Samningurinn, sem samþykktur var í borgarráði, er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 15 milljónir króna árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrkfjárhæðin 45 milljónum og er styrkurinn til stuðnings almennu björgunar- og hjálparstarfi björgunarsveitanna. Upphæðin er greidd óskipt til styrkþega, sem skulu sjá um að skipta styrknum á milli sín samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um.
„Björgunarsveitirnar eru ómetanlegur hluti af viðbúnaði og einstakar í sinni röð á heimsvísu,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Með þessum samningi sýnum við þakklæti í verki með stuðningi við starf þeirra og viðurkennum mikilvægt hlutverk björgunarsveitanna.”