Uppbygging stofnhjólaleiða tengir saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en leiðarnar ná yfir stóran hluta þess. Uppbyggingin heyrir að miklu leyti undir Samgöngusáttmálann sem gerður var milli ríkis og sveitarfélaganna árið 2019. Á næstu vikum og mánuðum bætast við nýir göngu- og hjólastígar og undirgöng á höfuðborgarsvæðinu.
Stígar og undirgöng
Í heildina eru þetta 2,3 km af hjólastígum, sem liggja um tvenn undirgöng. Þarna á meðal eru:
- Tvístefnu hjólastígur í Elliðaárdal í Reykjavík, sem nær frá gömlu Vatnsveitubrúnni að Grænugróf, verður tilbúinn á næstu vikum, en framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarna mánuði.
- Undirgöng við Bústaðaveg 151-153, fyrir ofan Sprengisand í Reykjavík, fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, ásamt nýju aðskildu stígakerfi eru á lokametrunum.
Heildaryfirlit yfir þessar framkvæmdir og það sem er í undirbúningi má lesa um á vef Vegagerðarinnar. Þar er vakin athygli á því að hjólreiðar séu skemmtileg, hagkvæm og umhverfisvæn útivist sem stuðli að bættri lýðheilsu.
Mikilvægur þáttur í því að auðvelda fólki á öllum aldri að komast leiðar sinnar á hjóli um höfuðborgarsvæðið er uppbygging stofnhjólaleiða sem tengja saman sveitarfélög, hverfi og atvinnusvæði.
Litið sérstaklega til samgönguhjólreiða
Útfærsla stofnhjólaleiðanna var unnin af vinnuhópi á vegum Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu og var litið sérstaklega til samgönguhjólreiða við skipulagningu þeirra. Hjólaleiðirnar þurfa að uppfylla viss skilyrði um hönnun til að tryggja umferðaröryggi og gæði.
Við undirbúning stofnhjólaleiðanna voru gerðar sérstakar talningar til að meta hvar mesta þörfin væri á að aðskilja hjólandi og gangandi vegfarendur og unnið út frá þeim. Í kjölfarið voru umferðarmestu staðirnir settir í forgang og einnig horft til þess hvar Borgarlínan kemur til með að vera en gert er ráð fyrir að meðfram henni verði góðar göngu- og hjólaleiðir.