Ný grenndarstöð við Hrannarstíg

Sorphirða

Djúpgámastöð við Hrannarstíg.

Búið er að opna nýja grenndarstöð við gatnamót Hrannarstígs og Öldugötu en grenndarstöðin er djúpgámastöð. Með þessari stöð eru grenndarstöðvarnar í Reykjavík orðnar 57 talsins. 

Ákalli íbúa svarað

Með framkvæmdinni var ákalli íbúa svarað um betra aðgengi að flokkun en þetta er fyrsta grenndarstöðin í gamla Vesturbænum, norðan Hringbrautar. Á stöðinni er hægt að flokka plast, pappír, málma og gler en með nýjum lögum varð skylda fyrir íbúa að flokka þessa fjóra flokka frá blönduðum úrgangi, ásamt textíl, spilliefnum og matarleifum. 

Djúpgámastöðvar henta vel fyrir eldri og þéttari byggð eins og þarna er. Þær eru jafnframt aðgengilegri en hefðbundnar grenndarstöðvar með gámum sem sitja á yfirborði.  

Samhliða framkvæmdunum var farið í tímabæra lagnavinnu og yfirborð var hellulagt og endurnýjað.