Hlutfallið milli negldra og ónegldra dekkja í mars var 39.7% á negldum og 60,3% á ónegldum sem er svipað og það var í desember 2022. Fyrir tveimur árum var hlutfallið 41,4% á móti 58,6% á ónegldum.
Bílstjórar hafa leyfi samkvæmt umferðarlögum að vera á nagladekkjum frá 1. nóvember til 15. apríl ár hvert. Reykjavíkurborg hvetur ökumenn til að velja fremur góð vetrardekk heldur en nagladekk. Dekk með nöglum eru ekki æskileg í Reykjavík, ástæðan er margþætt en nefna má eftirfarandi:
- Loftmengun sökum svifryks – hefur slæm áhrif á heilsu og mannlíf.
- Hávaðamengun – truflar og þreytir íbúa.
- Malbikið eyðist margfalt hraðar – kostnaður fyrir borgaryfirvöld og bíleigendur.
- Vönduð naglalaus vetrardekk koma betur út í könnunum á vetrardekkjum.
Lögreglan hefur leyfi til að sekta eigendur ökutækja á nagladekkjum eftir 15. apríl og er sekt á hvert dekk fyrir sig.
Reykjavíkurborg hvetur bílstjóra til að skipta sem fyrst yfir á hentug dekk.