Yfir 300 gestir frá hátt í 50 löndum sóttu ráðstefnu á vegum Evrópsku borgarfræðasamtakanna (The European Urban Research Association- EURA) sem lauk í Háskóla Íslands í vikunni. Gestir fengust meðal annars við málefni borga, þéttbýlismyndun, borgarskipulag og byggðamál í fjölbreyttum málstofum og yfir 200 manns mættu í vettvangsferðir í tengslum við borgarþróun á vegum Reykjavíkurborgar.
Evrópskar borgir voru í forgrunni á ráðstefnunni og komu þátttakendur úr greinum eins og skipulagsfræðum, stjórnmálafræði, opinberri stjórnsýslu, félagsfræði, arkitektúr og umhverfisfræðum auk starfsfólks sveitarfélaga. EURA eru rúmlega aldarfjórðungsgömul samtök fræðafólks sem fæst við rannsóknir tengdar borgum í afar víðu samhengi. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var: „The European City: A practice of resilience in the face of an uncertain future“ og var markmiðið að skoða seiglu evrópskra borga á óvissutímum tengdum meðal annars heimsfaraldri og loftslagsógn. Á dagskrá voru 235 erindi í 55 málstofum víða um háskólasvæðið auk þess sem Reykjavíkurborg stóð fyrir ellefu vel sóttum vettvangsferðum í tengslum við borgarþróun. Meðal svæða sem heimsótt voru í vettvangsferðunum voru Elliðaárdalurinn, skapandi hverfi í Gufunesi, Viðey og Laugardalur auk þess sem gestum bauðst að ganga um og kynna sér tónlistarsögu borgarinnar.
Grænar áherslur kynntar
Aðalræðumenn voru Matthew Carmona, prófessor í skipulagsfræðum við University College í London og Tina Saaby, forstjóri Dansk Byplanlaboratorium. Fjallaði Carmona um ákvarðanatöku um skipulag í borgum en Saaby um hvernig mætti hanna borgir fyrir fólk. Starfsfólk Reykjavíkurborgar flutti ýmis erindi út frá áherslum Græna plansins á málstofu í Háskólabíói en meðal viðfangsefna þar voru samgöngusáttmálinn, regnbogaáherslur borgarinnar, íbúalýðræði og fleira. Í kjölfarið stýrði Þorsteinn Gunnarsson borgarritari pallborðsumræðum.
Vel heppnuð samþætting
Viðbrögð þátttakenda við ráðstefnunni voru framar vonum. „Þetta var afar vel heppnuð samþætting á annars vegar háskólasamfélaginu og fræðastarfinu sem þar fer fram og hins vegar hagnýtingunni sem starfsfólk Reykjavíkurborgar kemur með að borðinu,“ segir Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu, en hún var formaður skipulagsnefndar ráðstefnunnar. „Allir þátttakendur tóku með sér einhvern lærdóm, hvort sem það voru borgarstarfsmenn að fá samtal við fræðasamfélagið eða háskólafólk að sjá hvað er að gerast í borgarsamfélaginu.“