Litasprengja í Hljómskálagarðinum

Garðyrkja

Þorsteinn Magni Björnsson garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg er umsjónarmaður Hljómskálagarðsins.
Maður og blómabeð.

Það eru sannkallaðar litasprengjur út um allt í Hljómskálagarðinum í Reykjavík en þemalitirnir í sumarblómunum í ár eru bleikur, fjólublár og gulur. Þorsteinn Magni Björnsson, garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg, er ábyrgur fyrir þessu skemmtilega litavali en hann er umsjónarmaður garðsins.

Síðustu tvö ár voru þemalitirnir appelsínugulur, blár, gulur og fjólublár, þannig að Þorsteinn Magni er ekki feiminn við liti.

Litaþemað hefur undanfarið verið hið sama tvö ár í röð hjá Þorsteini, því í garðyrkjunni líkt og öðru er mikilvægt að læra af reynslunni. „Það þarf reynslu til að fikra sig áfram og gera hlutina betri,“ segir hann.

Þarf að kunna að þola vonbrigði

Veðráttan hefur vissulega mikil áhrif á líf garðyrkjufólksins og hvernig tekst til. Hann hugsar ekki með hlýju til kalda vorsins og selturoksins sem fór illa með trjágróðurinn.

Júlí var hinsvegar sérstaklega sólríkur og gróðurinn hefur yfirleitt notið sín vel að undanförnu. Vandamál garðyrkjufólksins hefur frekar verið þurrkurinn, þannig að það er skammt öfganna á milli. Tíminn leiðir síðan í ljós hvernig trjánum vegnar og verða ekki gefin út nein dánarvottorð fyrr en næsta vor.

Þarf að kunna að þola vonbrigði í garðyrkjunni? „Já, sérstaklega á Íslandi. En það er alveg hægt að rækta margt eins og sést,“ segir hann og bendir á að veðráttan sé líka að breytast og hér þrífist ýmislegt sem gerði það ekki áður.

Garður í þróun

Þorsteinn Magni tók við Hljómskálagarðinum árið 2015 og hefur garðurinn tekið heilmiklum breytingum síðan þá. Áður hefur til að mynda verið sagt frá breytingum á svæðinu næst Hljómskálanum sjálfum og skemmtilegu fjölæringabeði.

Síðasta haust voru gerðar breytingar á beðinu sem liggur upp að Skothúsvegi, við bryggjuna eins og svæðið er kallað. „Það hefur gjarnan flætt yfir gangstéttina og inn í beðið og út í tjörn með aurburði en ég er að vona að við höfum stoppað þetta að mestu með þessum framkvæmdum,“ segir hann, meðal annnars var sett upp girðing og stórir steinar eru líka í beðinu til að hjálpa til við að stöðva jarðvegsrofið.

Blómstrandi beð og brú við Skothúsveg

Beðið lítur líka betur út og er einstaklega litríkt og skemmtilegt. Óhætt er að segja að hádegisblómin hafi skartað sínu fegursta í heimsókninni í garðinn eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hádegisblómin opna sig í sólinni og tóku skælbrosandi á móti gestum þennan góða dag.

Einnig er mikil prýði að blómunum á brúnni á Skothúsvegi. „Ég er hreykinn af brúnni, finnst hún sjaldan eða aldrei hafa verið fallegri,“ segir Þorsteinn Magni en blómin sem prýða hana í ár eru meðal annars skjaldflétta, stjörnuglit og tóbakshorn.

Mér finnst þetta mjög róandi garður. Ég kalla hann stundum friðargarðinn

Elskar mjúkar línur og náttúrulegt útlit

Þorsteinn Magni er sveitastrákur að uppruna en hann er frá Syðri-Hömrum í Ásahreppi, nálægt Hellu. Hann nýtur sín best í grænu umhverfi, hefur gaman af mjúkum línum í garðyrkjunni og kann að meta að hafa til dæmis ýmis skrautgrös í beðunum en þau hreyfast fallega í vindi og skapa mýkt.

Þorsteinn Magni er sannfærður um mikilvægi grænna svæða í borgum og leggur sitt af mörkum til að borgarbúar og gestir geti notið sín í Hljómskálagarðinum. Hann segir að vatnið og fuglarnir ýti undir náttúruupplifunina. „Mér finnst þetta mjög róandi garður. Ég finn ekki fyrir því þó allt í kring sé umferð. Ég kalla hann stundum friðargarðinn,“ segir hann.

Hann hvetur borgarbúa og gesti til að koma í heimsókn. „Mér finnst að garðurinn mætti vera meira notaður,“ segir hann. Það er því vert að minnast á að í garðinum eru mörg svæði þar sem hægt er að fara í lautarferð í skjóli trjánna, líka er hægt að setjast á bekk og njóta útsýnis yfir tjörnina og heimsækja leiksvæði eða nýtt æfingasvæði, sem þarna er komið upp, eða nú virða fyrir sér alla blómadýrðina, draga andann djúpt og gleðjast.

Ítarefni