Tækifæri í fallegum fjölæringum

Garðyrkja

Fjölæringabeð í Hljómskálagarðinum.

Sigríður Embla Heiðmarsdóttir á heiðurinn af hönnun einstaklega fallegra fjölæringabeða sem eru sitt hvoru megin við eina aðal gönguleiðina í Hljómskálagarðinum. Þar má meðal annars sjá klettaroða, sveipstjörnu, musterisblóm, brúngresi, rússaírisi, hjartarfífil, prestabrá og garðahálmgresi sem saman mynda náttúruleg og falleg beð á áberandi stað í garðinum.

Embla, eins og hún er kölluð stofnaði einmitt fyrirtæki sitt, Garðalíf Emblu, til þess að koma fjölæringum á framfæri. Hún kláraði BS-próf í umhverfisskipulagi,  sem heitir nú landslagsarkitektúr, frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og skrifaði lokaritgerð sína um fjölæringa.

„Ég skrifaði hana um það hvernig þeir eru nýttir í borgum í nágrannalöndum okkar. Og hvernig þeir nýtast í smá samkeppni við sumarblómin en við þurfum ekki bara að hafa sumarblóm heldur líka fjölæringa inni á milli,“ segir Embla og bætir við að það geti létt vinnu við að planta og að þeir byrji líka að vaxa áður en sumarblómatíminn hefjist og sumar tegundir standi lengur.

Skrautgróður til ánægju og augnayndis

„Þá er eitthvað að gerast í beðunum á vorin og lengur fram á haust. Umhverfislega séð er líka gott að þurfa ekki alltaf að rækta plöntur upp á nýtt heldur leyfa þeim að vaxa. Þetta var þemað í ritgerðinni minni,“ segir hún en titill ritgerðar hennar er „Skrautgróður til ánægju og augnayndis“ og undirtitill „Notkun fjölæringa á opinberum svæðum - áskoranir og möguleikar“.

Sem lið í þessum skrifum kannaði hún notkun fjölæringa hjá ýmsum bæjarfélögum og fékk víða góðar viðtökur, meðal annars í Reykjavík, þar sem útkoman varð eftir samtal og samvinnu þessi tvö glæsilegu beð. Sem stendur er hún einnig að vinna í Hveragerði og Kópavogi.

Plantað fyrir þremur árum

Plantað var í beðin í Hljómskálagarðinum árið 2019 en gaman er að segja frá því að verkefnið varð að veruleika eftir að hafa verið kosið í gegnum Hverfið mitt árið 2018. Nú þremur árum eftir plöntun eru þau fyrst að taka á sig almennilega mynd og njóta sín til fullnustu. „Þetta er þolinmæðisverkefni,“ segir hún en í fyrstu eru plöntunar smærri og það tekur tíma fyrir þær að vaxa saman og mynda þekju.

Það er að mörgu að huga þegar plönturnar eru valdar en Embla er meðal annars undir áhrifum frá hollenska landslagsarkitektinum Piet Oudolf en þekktasta verk hans er High Line garðurinn í New York.

Fyrirmyndir eru því til staðar en einnig þarf að huga að íslenskum aðstæðum. „Ég vildi hafa mikið af litum. Á Íslandi er þetta stuttur tími þar sem plönturnar eru í blóma,“ segir Embla, sem þarf því við hönnunina að huga að blómatíma og litum, „þannig að það væru alltaf einhverjir litir í beðinu og á ólíkum stöðum“.

Endurtekningar og magn

Fleira sem hún hugsar um er að beðin myndi ákveðna „rútínu fyrir augað“. „Flestir sem labba þarna eru að slaka á og þá er auðveldara að horfa á eitthvað sem þú getur skilið,“ segir Embla en með því á hún meðal annars við að það sé byrjað og endað á sömu plöntunum. Einnig skapar það meiri ró fyrir umhverfið að hafa töluvert magn af hverri og einni plöntu. Hún útskýrir að ef tegundirnar séu allt of margar virki það truflandi. Meira róandi sé að hafa endurtekningar í plöntun.

Embla er líka hrifin af notkun skrautgrasa en þau skapa ákveðna mýkt og á þessum stað kallast þau enn fremur á við tjarnarbakkann sjálfan. Hún segir að hér á Íslandi séum við „alltaf að leita að ólíkum blaðgerðum fyrst við getum ekki treyst á blómin“.

Einnig þarf að hafa mismunandi árstíðir í huga. „Það er það skemmtilega við grösin. Þarna er til dæmis hálmgresistegund sem er líka falleg þegar hún er þornuð. Það er gaman að leyfa þessu að vera, þá ertu að bjóða fuglum og dýrum að nærast og veita þeim skjól.“

Maður þarf að vera þolinmóður og það er gott fyrir sálartetrið að æfa sig í því.

Tækifæri að fá að gera beð á þessum stað

Hvernig er tilfinningin að hafa fengið verkefni á svona áberandi stað í Reykjavík?

„Það er alveg búið að vera svolítið stress, sérstaklega af því að þetta er búið að taka þrjú ár að verða að veruleika. Maður þarf að vera þolinmóður og það er gott fyrir sálartetrið að æfa sig í því. Þetta er þvílíkt tækifæri sem ég reiknaði ekki með svona tiltölulega ung í þessu, að fá strax tækifæri að gera beð í Hljómskálagarðinum í Reykjavík.“

Embla vildi koma fjölæringum á framfæri og hefur tekist það enda smellpassar það sem hún er að gera inn í tíðarandann. Hún vill engu að síður sjá enn þá meiri notkun á fjölæringum í bæði almenningsgörðum og einkagörðum. „Mér finnst alltaf hægt að gera meira í því. Einkagarðar á Íslandi eru margir hverjir troðfullir af flottum gersemum. Við þurfum að leyfa þeim að njóta sín betur. Það hefur alltaf verið talað þannig að það sé svo mikil umhirða í kringum fjölæringa og þetta sé svo erfitt en það eru líka tækifæri og maður á að líta á þetta þannig. Það gefur manni ótrúlega mikið að horfa á falleg fjölæringabeð og svo getur það líka verið góð þerapía að hreinsa í svona beðum þegar maður kann á þau.“