„Læri eitthvað nýtt um sjálfan mig“

Mannlíf Stjórnsýsla

Þórhallur Aðalsteinsson, fulltrúi í íbúaráði Vesturbæjar. Stendur við "jólatrésblokkirnar", í úlpu. Gott veður.

Þórhallur Aðalsteinsson er fulltrúi í íbúaráði Vesturbæjar. Hann var valinn með slembivali og fékk tölvupóst með boði um að taka þátt í íbúaráðinu. Hann kveðst fyrst hafa verið mjög hissa en þegar Heimir Snær Guðmundsson, starfsmaður íbúaráða, hafði samband, ákvað Þórhallur að slá til og svara játandi.

Litrík mörk á milli hverfa og sveitarfélaga

Þórhallur hefur búið á Skeljagranda í Vesturbænum í 22 ár. Hann segir geta verið flókið að búa í þessum hluta Vesturbæjarins, lengi vel hafi hann átt erfitt með að átta sig á því hvar mörkin milli Reykjavíkur og Seltjarnarness lágu. Hann langar því að koma á framfæri þeirri hugmynd að skil milli sveitarfélaga og hverfa verði merkt sérstaklega. „Ég var á ferðinni í Þýskalandi og þar var þetta gert með litríkum línum og vegfarendur boðnir velkomnir á mörkum hverfishluta. Mörkin milli Reykjavíkur og Seltjarnarness mætti merkja á áberandi hátt með einhverjum skemmtilegum litum og/eða skiltum. Það væri bæði fallegt og skemmtilegt“. 

Þórhallur kveðst mjög ánægður að búa í Vesturbænum því þar sé stutt í ýmsar áttir, til að mynda í miðborgina og á Grandann. Hann vinnur í Háskóla Íslands og tekur oftast strætó til og frá vinnu. „Ég hef yfirleitt átt gamla bíla og það getur verið tómt vesen að halda þeim í horfi og undirbúa fyrir veturinn. Ég ákvað að sleppa því að eiga bíl þegar einn þeirra hrundi og nota þess í stað almenningssamgöngur. Mér líkar svo vel að nota strætó að ég hef ekki ennþá fundið löngun til að kaupa aftur bíl en hver veit hvað verður síðar.“ 

Að lokum segir Þórhallur. „Ég kom inn í íbúaráðið alveg blautur á bakvið eyrun en mér hefur fundist frábært að kynnast starfi þess og læri eitthvað nýtt um sjálfan mig í leiðinni.“ 

Íbúaráð Reykjavíkur

Íbúaráð Reykjavíkur eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda.  Með íbúaráðunum er ætlunin að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar og efla möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fulltrúar í hverju íbúaráði eru sex talsins; þrír pólitískir, tveir úr grasrót í viðkomandi hverfi og einn slembivalinn.