Kaffibrennslan og 38 þrep verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar

Borgarhönnun Umhverfi

Kaffibrennslan fékk viðurkenningu fyrir fallegustu jólaskreytinguna. Myndir/Róbert Reynisson
Jólaskraut og gróðurhús.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti í gær viðurkenningu fyrir fallegustu jólaskreytingar rekstraraðila í miðborginni. 38 þrep, Laugavegi 49, fékk viðurkenningu fyrir fallegustu jólagluggaskreytinguna á meðan Kaffibrennslan, Laugavegi 21, fékk viðurkenningu fyrir fallegustu jólaskreytinguna.

Markmiðið með viðurkenningunum er að hvetja rekstraraðila til að skreyta hjá sér og skapa í leiðinni hlýlega og jólalega ásýnd í miðborginni. Óhætt er að segja að miðborgin hafi sjaldan verið fallegri á aðventunni og greinilegt að mörg hafa lagt sitt af mörkum við lýsa upp skammdegið með skemmtilegu skrauti.

Hjá Kaffibrennslunni er það gróðurhúsið góða sem setur mikinn svip á umhverfið og svo hafa margir vegfarendur, stórir sem smáir, staldrað við og haft gaman af þvottasnúru jólasveinsins. Í 38 þrepum er það gulllitaða vegglistaverkið, grenilengja og pakkaskreytingar, sem mynda hátíðlega heild í og við útstillingargluggana.

Viðurkenningin hefur verið veitt einu sinni áður, fyrir jólin 2021, þá í einum flokki þegar Apótekið var verðlaunað fyrir bestu jólaskreytinguna.

Mörg eiga væntanlega leið í miðborgina í dag og næstu daga en bærinn er oftar en ekki fjölsóttur þessa daga, ekki síst á Þorláksmessu, en þá eru götulokanir í gildi til að gefa gangandi meira pláss.

Við óskum verðlaunahöfunum til hamingju en meðfylgjandi myndir tala sínu máli og gera skreytingunum góð skil.