Myndir tíu reykvískra grunnskólanema voru í dag valdar sem framlög Reykjavíkur í alþjóðlega myndlistarsamkeppni barna. Samtök friðarborgarstjóra (e. Mayors for Peace) standa árlega fyrir keppninni í aðildarborgum sínum og börnum í Reykjavík gafst nú í fyrsta sinn tækifæri til þátttöku.
Þema keppninnar að þessu sinni er „Hvað er friður fyrir mér?“ (e. What Peace Means to Me) og voru úrslit reykvísku keppninnar tilkynnt í dag á alþjóðlegri friðarráðstefnu í Hörpu. Keppnin var ætluð börnum á aldrinum 6-15 ára sem búa og/eða sækja nám í Reykjavík og var keppt í tveimur aldursflokkum, 6-10 ára og 11-15 ára.
Þessi áhrifaríka mynd er eftir Bjart Aðalsteinsson, nemanda í 8. bekk í Hagaskóla.
Viðtökur kennara og barna við keppninni voru frábærar og bárust 593 listaverk frá 19 skólum. Fjölbreytnin var mikil og verkin hvert öðru fallegra og hugvitssamlegra. Því var ljóst að dómnefndarinnar beið erfitt verkefni, en hana skipuðu Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og formaður dómnefndar, Ariana Katrín Katrínardóttir, verkefnastjóri hjá Listasafni Reykjavíkur og Magnús Valur Pálsson, kennari og grafískur hönnuður.
Fallegt verk eftir Margréti Mjöll Sindradóttur, í 10. bekk Ingunnarskóla.
Verðlaunamyndir gætu ratað víða
Velja mátti fimm verk úr hvorum aldursflokki til að senda í alþjóðlegu keppnina fyrir hönd Reykjavíkur, en myndirnar sem sigra þá keppni verða notaðar víða, meðal annars í kynningarefni um mikilvægi menntunar á sviði friðarmála, til dæmis á ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Kennurum eru sendar þakkir fyrir frábært samstarf og öllum þátttakendum þökkum við fyrir fallegu listaverkin þeirra. Verk eftirfarandi listafólks voru valin áfram í erlendu keppnina fyrir hönd Reykjavíkur:
Í flokki 6-10 ára:
- Antoni Bajkowski Toczynski, 3. bekkur, Vogaskóli
- Embla Rún Vilhjálmsdóttir, 5. bekkur, Borgaskóli
- Elmar Hrafn Kjartansson, 3. bekkur, Foldaskóli
- Hrafntinna Y. Sigurðardóttir, 4. bekkur, Vogaskóli
- Málfríður Sólnes Friðriksdóttir, 5. bekkur, Melaskóli
Í flokki 11-15 ára:
- Viktoria Árna Danielak, 8. bekkur, Pólski skólinn við pólska sendiráðið
- Margrét Mjöll Sindradóttir, 10. bekkur, Ingunnarskóli
- Þórdís Edda Pálmadóttir, 7. bekkur, Langholtsskóli
- Bjartur Aðalsteinsson, 8. bekkur, Hagaskóli
- Hrafnhildur Tinna Guðmundsdóttir, 8. bekkur, Hlíðaskóli
Höfundur þessa fallega listaverks er Antoni Bajkowski Toczynski, í 3. bekk í Vogaskóla.
Allar myndirnar tíu sem verða sendar fyrir hönd Reykjavíkur í alþjóðlegu keppnina, má sjá á Facebook-síðu Reykjavíkur.