Ný og glæsileg hjólabraut við Gufunesbæ í Grafarvogi hefur vakið mikla lukku. Brautin er opin öllum og þar má finna leiðir og þrautir sem henta öllum getustigum.
Hjólabrautin við Gufunesbæ er hugmynd sem varð fyrir valinu í verkefninu Hverfið mitt, en það er lýðræðisverkefni sem fram fer í borginni á tveggja ára fresti. Fjallahjólasportið verður sífellt vinsælla hér á landi og því þótti tímabært að útbúa góða aðstöðu fyrir fjallahjólreiðafólk. Í umsögnum um hugmyndina var til að mynda talað um að braut sem þessi myndi auka hjólafærni barna og fullorðinna og þannig styðja við samgönguhjólreiðar. Þá var nefnt að brautin myndi bæði nýtast fólki við leik í frítíma sínum og við skipulagðar hjólreiðaæfingar.
Fjölskylduvænt svæði
Brautin er tilbúin til notkunar þótt einhver frágangur sé eftir, svo sem uppsetning upplýsinga- og viðvörunarskilta og minniháttar lagfæringar. Hún er opin öllum og hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum. „Brautin er hönnuð þannig að hún henti börnum en samt eru líka stökkpallar og fleira sem hægt er að vinna sig upp í,“ segir Magne Kvam, sem hannað hefur hjólaleiðir víða og sá um hönnun og smíði brautarinnar við Gufunesbæ. „Helsta áskorunin er alltaf að ná að hanna fyrir öll getustig og þarna tókst það vel. Svo er líka frábært að við hliðina á brautinni er leiksvæði svo svæðið er mjög fjölskylduvænt þótt ekki séu allir að hjóla.“
Mikilvægt að huga að öryggi og nota hjálma
Það er mikil vinna að útbúa hjólabraut sem þessa og hefur vinnan staðið yfir frá síðasta hausti. „Þarna var mikil mýri og aðstæður ekki ákjósanlegar til að byrja með en útkoman er frábær; vatn, gróður og skjólsæld,“ segir Magne. „Mig langar að minna fólk á að skoða brautina vel áður en það byrjar að nota hana. Yngri börn ættu alltaf að vera í fylgd með fullorðnum til að byrja með og að sjálfsögðu á að nota hjálma. Svo þurfa þau sem eru eldri og vanari að sýna þeim sem yngri eru og að taka sín fyrstu skref í sportinu tillitssemi og svigrúm. Þetta er tiltölulega nýtt sport hér en þetta lærist allt saman. Þetta byrjar frábærlega, brautin er mjög vel sótt og greinilega full þörf á svona aðstöðu!“
Hjólreiðastjörnur framtíðarinnar
Hjólreiðafólk virðist ánægt með brautina og krakkar sem borgarstarfsfólk hitti þar að leik voru til fyrirmyndar og notuðu brynjur, hjálma og aðrar hlífar. Sést hefur til lengra kominna við æfingar á heljarstökkum í brautinni svo greinilegt er að vel hefur tekist til með að höfða til ólíkra hópa notenda.
13-18 ára ungmenni hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur leyfðu okkur að fylgjast með æfingu og taka myndir og það er deginum ljósara að þarna eru hjólreiðastjörnur framtíðarinnar á ferð!
Á Facebooksíðu Reykjavíkurborgar má sjá fleiri myndir frá æfingunni.