Fyrsta hluta leikskólaúthlutunar ársins 2023 lokið 

Skóli og frístund

Leikskólaföt hangandi á snögum við hólf barna á leikskóla.

Við lok fyrsta hluta leikskólainnritunar í Reykjavík hafa verið send út boð um pláss í borgarreknum leikskólum til foreldra 1.373 barna. Nú hefst seinni hluti innritunar og verður þá fleiri plássum úthlutað, meðal annars í nýjum ungbarnaleikskóla sem verður opnaður í haust. Einnig er gert ráð fyrir að í ár fái um 350 börn úthlutað plássum í sjálfstætt starfandi leikskólum í borginni. 

Þann 14. mars var lokað fyrir nýjar umsóknir í borgarrekna leikskóla í Reykjavík og hófst þá  fyrsti hluti árlegrar úthlutunar sem stóð yfir til 17. apríl. Næsti hluti úthlutunar mun standa yfir þar til í haust og verður þá úthlutað í þau pláss sem enn eru laus, auk plássa sem losna eða verða til á næstu mánuðum. Reykjavíkurborg styrkir einnig að stærstum hluta starfsemi sjálfstætt starfandi leikskóla sem munu innrita börn á næstunni og er búist við að um 350 börn til viðbótar fái þar pláss í haust.  

Staðan er misjöfn eftir hverfum en ekki verður hægt að gefa út marktækar upplýsingar um meðalaldur barna fyrr en í sumar þegar sjálfstætt starfandi skólarnir klára sitt innritunarferli.   

Mikil uppbygging hefur staðið yfir í leikskólum í Reykjavík undanfarin ár og hún heldur áfram á þessu ári. Strax í næstu viku, eða 26. apríl, verður opnað fyrir umsóknir í nýjan ungbarnaleikskóla við Hallgerðargötu á Kirkjusandi sem gert er ráð fyrir að hefji starfsemi í haust. Þar verða pláss fyrir 60 börn á aldrinum 12-36 mánaða. Einnig er gert ráð fyrir opnun nýrrar Ævintýraborgar við Vörðuskóla síðar á árinu en þessi uppbygging er hluti af Brúum bilið aðgerðaáætluninni.