Hröð fjölgun flóttafólks sem fær þjónustu Reykjavíkurborgar hefur leitt af sér gróskumikið og öflugt starf en um leið reynir á innviði. „Ég er mjög stoltur af starfsfólki borgarinnar sem hefur tekist á við þessar áskoranir með áræðni, jákvæðni og lausnahugsun í fyrirrúmi, sem sýnir svo vel að við erum eitt samfélag og berum ábyrgð gagnvart hvert öðru,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Um leið er mikilvægt að öll sveitarfélög taki þátt í þessu mikilvæga verkefni af sama metnaði.”
Á undanförnum tíu árum hafa 4.228 einstaklingar með stöðu flóttafólks fengið þjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Langflestir þeirra hafa fengið þjónustu á undanförnum þremur árum, eða 3.526 manns. Á síðustu þremur skólaárum komu 358 börn flóttafólks inn í leikskóla Reykjavíkurborgar og 770 börn inn í grunnskóla.
Þetta kom fram á fundi borgarráðs í morgun, þegar þjónusta Reykjavíkurborgar við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd var þar til umræðu. Samhæfingarhópur fór þar yfir þjónustuna sem veitt er og mögulegar sviðsmyndir næstu missera.
Langflest þess flóttafólks sem fær þjónustu Reykjavíkurborgar kemur frá Úkraínu en stór hópur kemur jafnframt frá Venesúela. Þegar rætt er um flóttafólk í þjónustu Reykjavíkurborgar er átt við einstaklinga sem hafa fengið stöðu sína sem flóttafólk viðurkennda af stjórnvöldum og þar með fengið alþjóðlega vernd. Eftir að hafa fengið stöðu fá einstaklingar boð um þjónustu á grundvelli samnings Reykjavíkurborgar við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks.
Fjölbreytt aðstoð við að taka þátt í samfélaginu
Sem dæmi um þá þjónustu sem flóttafólk getur fengið hjá Reykjavíkurborg má nefna félagslega ráðgjöf, gerð grunnmats og stuðningsáætlunar, sálfræðistuðning, aðgang að virkniúrræðum og námskeiðum tengdum uppeldi og íslensku samfélagi, aðstoð við ýmislegt á borð við húsnæðisleit, að sækja um húsnæðisbætur og húsnæðisstuðning, byggja upp heimili, skrá sig á heilsugæslu, sækja rafræn skilríki, stofna bankareikning og samskipti við aðrar stofnanir. Þá fá barnafjölskyldur aðstoð við að sækja um skóla, tómstunda- og félagsstarf.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd
Áður en fólk fær stöðu flóttafólks kallast það umsækjendur um alþjóðlega vernd og fær þjónustu Reykjavíkurborgar á grundvelli annars samnings við ríkið, sem tekur til 300 manns á hverjum tíma. Fólk í þeirri stöðu fær húsnæði, félagslega ráðgjöf, stuðningsáætlun, boð um þátttöku í virkniúrræðum á borð við hópastarf, virkninámskeið eða vatnslitanámskeið, aðstoð við að skrá börn í skóla, leikskóla og frístund og fleira eftir þörfum. Þá er mikið samstarf um virkni við aðrar stofnanir og félagasamtök, svo sem LHÍ, bókasöfn, Rauða krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar.
Ólíkar þarfir barna á leik- og grunnskólaaldri
Í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar eru nú mikill fjöldi barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, þar á meðal börn flóttafólks. Árið 2023 voru 1750 börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í leikskólum og 3400 börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í grunnskólum. Á síðustu þremur skólaárum komu 358 börn flóttafólks inn í leikskóla Reykjavíkurborgar og 770 börn inn í grunnskóla.
Börnin eru afar misjafnlega stödd og hafa ólíkar þarfir. Sum þeirra hafa litla sem enga skólagöngu að baki og hafa búið við óstöðugleika í lífi sínu og þurfa því mikinn stuðning til að geta tekið þátt í almennu skólastarfi eftir að þau hafa fengið stöðu flóttafólks. Á fundinum kom fram að veita þurfi börnum og fjölskyldum þeirra betri undirbúning og stuðning svo að þau geti tekið þátt í almennu leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi.
Það er jafn mikilvægt að sveitarfélögin eigi gott samtal við ríkið um hvernig við stöndum að móttöku flóttafólks og sérstaklega stuðningi við börn í skólakerfinu, og hvernig við fjármögnum það.
Mikil þekking byggst upp á síðustu árum
Á fundinum í morgun kom einnig fram að mikil þekking hafi að undanförnu byggst upp þegar kemur að þjónustu við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd innan Reykjavíkurborgar. Hins vegar sé þörf er á enn frekari uppbyggingu og sérhæfingu og ekki síður aukinni aðkomu ríkisins og annarra sveitarfélaga að þjónustu við hópinn. Þannig fái Reykjavíkurborg til að mynda ekki fjárframlag úr jöfnunarsjóði vegna kennslu barna af erlendum uppruna í grunnskólum, á meðan önnur sveitarfélög fá greiddar 170 þúsund krónur á ári með hverjum nemanda. Einnig þurfi viðurkenningu á því að þjónusta við börn með stöðu flóttafólks er langt umfram grunnþjónustu sveitarfélaga gagnvart börnum í leik- og grunnskóla. Þá þurfi að fjölga þeim einstaklingum sem skráðir eru í samræmda móttöku flóttafólks og auka til muna fjármagn til leik- og grunnskóla, svo þeir geti betur sinnt þjónustu sinni við hópinn.
“Það er jafn mikilvægt að sveitarfélögin eigi gott samtal við ríkið um hvernig við stöndum að móttöku flóttafólks og sérstaklega stuðningi við börn í skólakerfinu, og hvernig við fjármögnum það“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. "Og það á einnig almennt við um börn með annað móðurmál en íslensku. Þar er margt gert vel en við þurfum að gera enn betur að mínu mati."
Yfirlit um stöðu á samræmdri móttöku flóttafólks - kynning fyrir borgarráði 29.6.2023