Heiða Björk Júlíusdóttir var valin með slembivali í íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals. Eftir að hafa hugsað sig vel um tók hún boðinu. Heiðu fannst þetta tækifæri til að kynnast hverfinu betur, kynnast stjórnsýslunni, víkka sjóndeildarhring sinn og fá að hafa áhrif í nærumhverfinu.
Heiða á heima í jaðri Grafarholts, umkringd náttúru og nærri enda golfvallarins, sem hún og maðurinn hennar nýta sér gjarnan. Það verður fljótlega ljóst að ekki er komið að tómum kofanum þegar kemur að málefnum hverfisins. Heiða þekkir efri byggðir borgarinnar vel, bjó árum saman í Grafarvogi þar sem hún vann meðal annars í þjónustumiðstöðinni Miðgarði, flutti í Grafarholt þegar hverfið var að byggjast árið 2003 og nú býr sonur hennar í Úlfarsárdal.
Dásamlegt hverfi til útivistar
Hún og maðurinn hennar eru mikið útivistarfólk, ganga og hjóla mikið auk þess að stunda golf. „Þetta er dásamlegt hverfi til útivistar, hálfgerð sveit í borg. Við göngum meðal annars í Paradísardal, hjá Reynisvatni og á Úlfarsfell. Hér er stutt í alla þjónustu, við höfum okkar eigin kirkju og á Vínlandsleið er líka lögreglustöð.“ Hún bætir við að þó sé galli að öll þjónustan er við aðalgatnamótin í hverfinu og að þar geti myndast umferðarteppur á álagstímum. Hægt sé að koma í veg fyrir það með að fjölga leiðum inn í hverfið sjálft og til og frá bílastæðum verslana.
Heiða Björk segir það hafa aukið gæði hverfisins þegar íþróttaaðstaðan, sundlaugin og bókasafnið voru tilbúin í Úlfarsárdalnum. „Hér er allt til alls. Ég held að fólk viti ekki hvað það er eftirsóknarvert að búa hérna, hverfið hefur upp á svo margt að bjóða. Þetta er besta úthverfi borgarinnar,“ segir Heiða.
Aðspurð um hvað megi bæta í hverfinu segir hún enn vanta ýmsa nærþjónustu í Úlfarsárdalinn. „Svo langar mig að hverfið sé öruggt fyrir alla aldurshópa og til viðbótar við umferðarteppur langar mig að fara yfir aðgengismál og lýsingu í hverfinu,“ segir hún að lokum.
Íbúaráð Reykjavíkur
Íbúaráð Reykjavíkur eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Með íbúaráðunum er ætlunin að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar og efla möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fulltrúar í hverju íbúaráði eru sex talsins; þrír pólitískir, tveir úr grasrót í viðkomandi hverfi og einn slembivalinn.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um íbúaráðin og fylgjast með fundum þeirra á heimasíðu Reykjavíkurborgar.