Allt um þjónustu við eldra fólk á einum stað

Samsett mynd af alls konar eldra fólki.

Í nýjum rafrænum bæklingi um þjónustu við eldra fólk eru samanteknar upplýsingar um þá þjónustu og stuðning sem Reykjavíkurborg veitir eldra fólki. Þar má einnig sjá hvernig er best að nálgast þjónustuna.

Í bæklingnum má meðal annars finna upplýsingar um það fjölbreytta félagsstarf sem hægt er að stunda í Reykjavík. Í borginni eru sautján félagsmiðstöðvar þar sem boðið er upp á ýmiss konar félagsstarf, hreyfingu og samveru, auk þess að þar er heitur matur í hádeginu. Lista yfir félagsmiðstöðvarnar er að finna í bæklingnum.

Eldra fólk getur fengið ýmiss konar þjónustu heim til sín, til dæmis í formi heimastuðnings eða heimahjúkrunar. Þá getur fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki eldað sjálft og sér sér ekki fært að fara félagsmiðstöðvar til að borða fengið heimsendan mat.

Einnig eru nú í boði margs konar nýjungar í þjónustu við eldra fólk, svo sem skjáheimsóknir, notkun lyfjaskammtara og endurhæfing í heimahúsi. Um allt þetta má lesa í bæklingnum.  

Um dagdvalir í Reykjavík má jafnframt lesa en eldra fólk sem býr heima en á ekki gott með að nýta starf félagsmiðstöðva gæti notið sín í þeim. Þar eru einnig upplýsingar um þjónustuíbúðir og hjúkrunarheimili.  

Að lokum eru í bæklingnum heimilisföng, símanúmer og hlekkir á ýmsa áhugaverða og gagnlega þjónustu sem nýst geta eldra fólki í Reykjavík.

Bæklingurinn er unninn á velferðarsviði í samvinnu við Öldungaráð Reykjavíkurborgar en ráðið er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni eldra fólks.