Yfir hundrað húsfélög styrkt til að byggja upp hleðslustöðvar

Samgöngur Umhverfi

Hleðslustöð í Borgartúni.

Búið er að greiða út yfir 120 milljónir króna í styrki til húsfélaga til að byggja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla við fjöleignahús.  Á síðasta fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar voru samþykktar 19 umsóknir en vanalega hafa borist á bilinu fjórar til sex umsóknir fyrir hvern fund. Alls er búið að styrkja yfir hundrað húsfélög með yfir 3.200 íbúðum.

Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur gerðu með sér samkomulag í apríl 2019 um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Tekið var við fyrstu umsóknum í sjóðinn í september 2019 og hefur verið greitt úr sjóðnum samkvæmt úthlutunarreglum en hámarks styrkupphæð til hvers húsfélags var 1,5 milljón króna en þó aldrei meira en sem nemur 67% af heildarkostnaði verksins. Fyrsta húsfélagið fékk síðan greitt úr sjóðnum í desember 2019 þegar það lauk framkvæmdum.

Helstu tölur

  • Búið er að styrkja eða veita vilyrði fyrir styrkjum til 101 húsfélags.  
  • Í þessum húsfélögum eru samtals 3.245 íbúðir sem eru komnar með aðgengi að hleðslustöð við heimili eða munu fá á næstu vikum og mánuðum.
  • Meðal kostnaður hjá hverju húsfélagi sem lokið hefur framkvæmdum er 2,47 milljónir króna.
  • Meðal styrkur til húsfélags er 1,26 milljónir króna.

Heildarúthlutanir eftir árum

Árið 2020 voru greiddar 32,5 milljónir króna, árið 2021 31,2 milljónir króna og á þessu ári er búið að greiða eða veita vilyrði fyrir styrkjum fyrir 59,6 milljónir króna. Það er því búið að greiða út eða veita vilyrði fyrir styrkjum upp á 123,3 milljónir króna.  Í sjóðinn átti að setja 20 milljónir króna á ári frá hvorum aðila, borginni og OR, í þrjú ár, samtals 120 milljónir króna. Sjóðurinn er því tómur og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um framhald hans.

Skoða síðu um samkomulag Reykjavíkurborgar, OR og Veitna um uppbyggingu innviða fyrir rafbíla