Velferðarsvið Reykjavíkurborgar í viðbragðsstöðu vegna óveðurs

Búist er við að ofsaveður skelli á landinu í nótt.

Ef veðurspá morgundagsins gengur eftir hefur það ýmis áhrif á þjónustu velferðarsviðs. Viðbúið er að akstursleiðir verði illfærar og því má búast við talsverðri seinkun á þjónustu heimahjúkrunar og heimaþjónustu, þar sem erfitt getur reynst að komast í vitjanir, sérstaklega í efri byggðum. 

Allur morgunakstur Pant, sem sinnir akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldri borgara, fellur niður. Því er ljóst að einstaklingar sem nýta þjónustuna komast ekki til sinna starfa í fyrramálið. 

Viðbúið er að seinkun verði á matarsendingum frá mötuneyti velferðarsviðs á Vitatorgi. Allir munu þó fá matinn heim og reynt verður eftir bestu getu að takmarka seinkunina.  

Dagdvölin Þorrasel og dagdvölin Vitatorgi verða lokaðar. Þá fellur félagsstarf í félagsmiðstöðvum velferðarsviðs niður fyrir hádegi. 

Neyðarskýli sem Reykjavíkurborg rekur, Konukot, gistiskýlið á Lindargötu og neyðarskýlið á Granda, verða öll opin. Þetta er í samræmi við neyðaráætlun málaflokks heimilislausra vegna veðurs sem hefur verið virkjuð.

Fólk er hvatt til þess að fylgjast vel með frekari tilkynningum í fyrramálið.