Uppáhaldsviðburður unglinga í Reykjavík

Mannlíf Menning og listir

Árbæjarskóli sigraði Skrekk árið 2021
Mynd frá siguratriði Árbæjarskóla í Skrekk 2021

Undanúrslit Skrekks fara fram dagana 7., 8. og 9. nóvember í Borgarleikhúsinu.

Í Skrekk fá unglingar í grunnskólum Reykjavíkur að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins fyrir hönd síns skóla. Að þessu sinni taka 614 unglingar úr 24 skól­um þátt í keppninni. Átta skólar munu komast í úrslit sem fara fram 14. nóvember.

Atriðin að þessu sinni fjalla um sjálfs­mynd ung­linga, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir nýta all­ar sviðslist­ir í atriðin; tónlist, dans, leik­list og gjörn­inga. Þau sjá um að semja atriðin, það er leik, dans, sögu og tónlist og sum eru jafnvel með frumsamin lög. Krakkarnir sjá líka um tækni­hliðina, bún­inga og förðun. Full­orðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.   

Sigurvegarar krýndir á stóra sviðinu

Skrekkur er samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV, í Borgarleikhúsinu. Undanúrslitakeppnirnar verða sýndar í vefútsendingu á UngRÚV og RÚV en lokakvöldinu þann 14. nóvember verður sjónvarpað beint í línulegri dagskrá á RÚV og verða þá sigurvegarar krýndir á stóra sviði Borgarleikhússins. 

Skrekkur fékk tilnefningu til Íslensku Menntaverðlaunanna 2022 sem framúrskarandi þróunarverkefni.