Undanúrslit Skrekks fara fram dagana 7., 8. og 9. nóvember í Borgarleikhúsinu.
Í Skrekk fá unglingar í grunnskólum Reykjavíkur að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins fyrir hönd síns skóla. Að þessu sinni taka 614 unglingar úr 24 skólum þátt í keppninni. Átta skólar munu komast í úrslit sem fara fram 14. nóvember.
Atriðin að þessu sinni fjalla um sjálfsmynd unglinga, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir nýta allar sviðslistir í atriðin; tónlist, dans, leiklist og gjörninga. Þau sjá um að semja atriðin, það er leik, dans, sögu og tónlist og sum eru jafnvel með frumsamin lög. Krakkarnir sjá líka um tæknihliðina, búninga og förðun. Fullorðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.
Sigurvegarar krýndir á stóra sviðinu
Skrekkur er samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV, í Borgarleikhúsinu. Undanúrslitakeppnirnar verða sýndar í vefútsendingu á UngRÚV og RÚV en lokakvöldinu þann 14. nóvember verður sjónvarpað beint í línulegri dagskrá á RÚV og verða þá sigurvegarar krýndir á stóra sviði Borgarleikhússins.
Skrekkur fékk tilnefningu til Íslensku Menntaverðlaunanna 2022 sem framúrskarandi þróunarverkefni.