Borgarstjóri í hverfaheimsókn í Grafarholti og Úlfarsárdal
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, er í hverfaheimsókn í Grafarholti og Úlfarsárdal þessa dagana.
Hann er með aðsetur í Dalskóla og nýju menningarmiðstöðinni dagana 14. – 16. febrúar. Hann mun heimsækja starfsstöðvar og stofnanir í hverfinu á meðan á heimsókninni stendur. Dagur fór í morgun og hitti nemendur í Ingunnarskóla og þeir gáfu honum mynd þar sem börnin höfðu teiknað myndir af borgarstjóra með spurningum til hans um starfið og hann sjálfan. Er gaman að vera borgarstjóri? Ertu þakklátur að vera kosinn borgarstjóri?, Viltu verða besti borgarstjóri í heimi? Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítill? Var gaman að vera læknir?. Borgarstjóra var svo boðið í skoðunarferð með skólastjóra og fulltrúum nemenda úr 8., 9. og 10. bekk Ingunnarskóla.
Á morgun, miðvikudaginn 16. febrúar klukkan 20.00, verður svo haldinn íbúafundur í nýju menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal. Á fundinum kynnir borgarstjóri það sem efst er á baugi í hverfinu og mun eiga samtal við íbúa um framtíð hverfisins.
Íbúar eru velkomnir á fundinn og taka þátt í umræðum. Fundurinn verður einnig í beinu streymi og geta þeir sem ætla sér að taka þátt í fjarfundinum sett inn spurningar á viðburðasíðu hverfafundarins. Íbúar eru hvattir til að og taka þátt.
Hverfavikur sem eru framundan:
Hverfavika Árbær 22. – 24. febrúar
Hverfavika Laugardal 28. febrúar – 2. mars
Hverfavika Breiðholt 8.– 10. mars
Hverfadagur Kjalarnesi 17. mars
Hverfavika Grafarvogur 29. mars – 31. mars
Hverfavika Miðborg 4. apríl – 6. apríl