Yngri börn inn í leikskólana

Skóli og frístund

""

Vel á fjórða hundrað börn, yngri en átján mánaða, hófu leikskóladvöl síðastliðið haust en svokallaðar ungbarnadeildir eru nú við 26 leikskóla af 64 í borginni. Er það liður í aðgerðaráætluninni Brúum bilið sem miðar að því að fjölga leikskólaplássum í borginni.

Við úttekt á biðlistum eftir leikskóla 12. janúar 2021 kom í ljós að um 60 börn sem voru orðin 18 mánaða 1. september sl. bíða eftir leikskólaplássi, en í flestum tilvikum er um er að ræða nýjar umsóknir frá því að aðalinnritun fór fram s.l. haust.  Einnig getur verið að foreldrar þessara barna kjósi að bíða eftir plássi í öðrum leikskóla en þeim býðst.

200 umsóknir um leikskólapláss hafa borist fyrir börn sem voru orðin 18 mánaða 1. jan. 2021.

Þá liggja fyrir 737 umsóknir fyrir börn sem voru orðin 12 mánaða 1. jan. 2021.



Aðalinnritunardagur inn í leikskólana fyrir haustið 2021 verður 16. mars. Mikilvægt er að foreldrar verði með skráðar umsóknir á þeim tíma í þá leikskóla sem þeir óska eftir.

Í haust er gert ráð fyrir að 1.168 leikskólabörn fædd 2015 hefji grunnskólagöngu og eru þá flest ný börn tekin inn í leikskólana.  

Nú er unnið að undirbúningi  við nýja leikskóla m.a. við Kleppsveg, í Safamýri og á Kirkjusandi sem ráðgert er að verði opnaðir á næstu 12-18 mánuðum. Í þessum þremur leikskólum verður rými fyrir um 270 börn alls.

Á þessu ári stendur til að fjölga leikskólarýmum í öðrum leikskólum borgarinnar, m.a. Seljakoti í Breiðholti, Funaborg í Grafarvogi og Gullborg í Norðlingaholti.

Alls er stefnt að fjölgun leikskólarýma um 1.050 -1.100 á næstu þremur til fjórum árum sem lið í þeirri áætlun að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólagöngunnar.