Reykjavíkurborg leitar nú eftir þátttakendum í markaðskönnun um deilibílaleigur. Könnunin er fyrst og fremst ætluð þeim rekstraraðilum sem hafa áhuga á að taka þátt í næsta skrefi en borgarráð samþykkti síðastliðið haust að styrkja deilibílaleigur.
Nú er haldið áfram með útfærslu á deilibílaleigum í Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að tryggja framboð umhverfisvænna deilibíla og dreifingu þeirra um borgina, sem og gæði þjónustunnar. Fjárhagsrammi borgarinnar varðandi þetta verkefni er til tveggja ára og getur verið að hámarki fimm milljónir á ári.
Tilgangur markaðskönnunarinnar er að óska eftir hugmyndum og upplýsingum frá áhugasömum aðilum sem standa að eða huga að rekstri deilibílaleigu í Reykjavík. Meðal annars verður falast eftir hugmyndum um útfærslu þjónustusamnings til næstu tveggja ára.
Markmiðið með verkefninu
Markmið borgarinnar með því að leggja til fjármagn til deilibílaleigu til næstu tveggja ára er eftirfarandi:
- Efla vöxt deilibíla innan Reykjavíkur.
- Stuðla að fleiri og fjölbreyttari deilibílum á þeim stöðum þar sem deilibílar eru aðgengilegir í dag.
- Stuðla að stærra þjónustusvæði svo að deilibílar verði í boði í öllum borgarhlutum.
- Stuðla að samkeppni.
- Brúa bilið til sjálfbærni.
- Stuðla að því að rekstraraðilar geti haldið áfram rekstri án aðkomu borgarinnar.
- Tryggja gæði deilibílaþjónustunnar.
- Deilibílaleiga standist verklagsreglur borgarinnar um úthlutun deilibílastæða á borgarlandi.
Hægt að senda inn til 12. maí
Áhugasömum aðilum er boðið taka þátt í markaðskönnuninni með því að senda inn upplýsingar, ábendingar og hugmyndir um hvernig útfæra skuli þjónustusamning við deilibílaleigu til næstu tveggja ára eigi síðar en kl. 16. 00 þann 12. maí, 2021.
Markaðskönnunin er aðgengileg á útboðsvef Reykjavíkurborgar (þarfnast innskráningar).