Borgin styrkir deilibílaleigur

Samgöngur Umhverfi

""

Tillaga borgarstjóra um að borgin styrki deilibílaleigur var samþykkt í borgarráði í gær.

Deilibílaleigur (e. Car Sharing Systems) hafa tryggt sér sess í fjölmörgum borgum erlendis, sem leggja áherslu á fjölbreytta ferðamáta. Slíkar leigur gefa fólki þann kost að þurfa ekki að eiga og reka bíl. Tilgangur þeirra er því að veita fólki aðgang að bíl fyrir styttri og lengri ferðir innan borgarinnar.

Stofnað var til deilibílaverkefnis á vegum borgarinnar árið 2017 og gerir tillaga borgarstjóra ráð fyrir að skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara verði falið að útfæra áframhald á því verkefni í samvinnu við skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar á umhverfis- og skipulagssviði.

Leitað verður tilboða í verkefnið með verðfyrirspurn og í kjölfar samningaviðræðna verður útbúinn þjónustusamningur um rekstur deilibílaleigu í Reykjavík til næstu tveggja ára.

Framlag borgarinnar til verkefnisins verður að hámarki fimm milljónir ár ári en tilgangurinn með stuðningnum er að tryggja umhverfisvænar bifreiðar, gæði þjónustunnar, fjölda bíla og dreifingu þeirra í borginni.

Á meðan þessu tveggja ára tímabili stendur er umhverfis- og skipulagssviði falið að vinna að frekari greiningum, stefnumörkun og undirbúningi ákvarðana um rekstur deilibíla og annarra sambærilegra samgangna í Reykjavík til lengri framtíðar.

Stuðningur við rekstur deilibílaleigu er í takt við það að samgöngur í Reykjavík eru að breytast mjög hratt þessi misserin.  Sífellt fleiri taka strætó, ganga, hjóla eða nota örflæðilausnir eins og rafskútur eða deilihjól til að komast leiðar sinnar. Samhliða aukinni notkun virkra ferðamáta er einkabílanotkun að dragast saman, samkvæmt nýjustu ferðavenjukönnunum.

Ef Reykjavík ætlar að ná því markmiði að vera orðin kolefnishlutlaus árið 2040 þarf að gera enn betur. Samgöngusáttmáli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu tryggir stóraukna notkun almenningssamgangna með Borgarlínu og tryggir jafnframt aukna reiðhjólanotkun með bættu göngu- og hjólastíganeti. Reykjavíkurborg hefur einnig lagt meiri peninga í hjólreiðaáætlun sína og þannig unnið að lagningu hjólastíga og stórbættum merkingum fyrir þá sem nýta reiðhjól sem samgöngukost. 

Samgöngur sem þjónusta (e. Mobility as a Service) hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum. Með góðri samgönguþjónustu þarf fólk ekki lengur reka einkabíl heldur getur auðveldlega sótt sér þau farartæki sem henta hverju sinni á þægilegan og ódýran máta.

Verklagsreglur Reykjavíkurborgar og gjaldskrá vegna stæða undir deilibíla á borgarlandi voru samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 7. september 2017 og á fundi borgarráðs þann 14. september sama ár. Reykjavíkurborg hefur boðið deilibílasamtökum / deilibílaleigum að leigja bílastæði á borgarlandi, við götukanta, á bílastæðalóðum og í bílastæðahúsum í eigu borgarinnar, til þess að hjálpa deilibílaleigum að staðsetja bíla sem næst heimilum og fyrirtækjum. Samkvæmt reglunum innheimtir borgin ákveðið gjald fyrir afnot af deilibílastæðum.

Undanfarin ár hefur deilibílaþjónustan Zip-Car boðið borgarbúum upp á að leigja deilibíla í Reykjavík. Viðskiptavinir Zip-Car eru einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki og hefur verkefnið gengið ágætlega. Hinsvegar er það mat Reykjavíkurborgar að til þess að ná fram markmiðum um breyttar ferðavenjur víðar í borginni þurfi að auka hlut deilibíla í samgöngum innan borgarinnar. Deilibílaleiga með öfluga starfsemi víðsvegar í borginni væri því mjög velkomin viðbót við fjölbreytta samgöngumáta í höfuðborginni.

Nú þegar er starfandi deilihjólaleigan Donkey í Reykjavík sem borgin styður við ásamt fjórum rafskútuleigum, Hopp, Zolo, Kikk og Wind, sem hafa notið mikilla vinsælda. Þessir samgönguvalkostir ásamt aukinni umferð gangandi og hjólandi vegfarenda og meiri notkun Strætó hjálpast að við að draga úr umferð einkabíla, minnka svifryk og útblástur gróðurhúsalofttegunda.