Víðtækt þróunar- og nýsköpunarstarf hefur einkennt innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar sem tók gildi fyrir röskum tveimur árum og gildir fram til ársins 2030.
Fjöreggið í innleiðingu menntastefnunnar hefur verið þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs sem gerir öllum starfsstöðum kleift að velja sína áhersluþætti í stefnunni og sækja sér styrki til að framfylgja þeim.
Í starfsáætlunum starfsstaða er gerð grein fyrir því með hvaða hætti er byggt á stefnunni en meginþættir hennar eru Félagsfærni, Læsi, Heilbrigði, Sjálfsefling og Sköpun.
Því til viðbótar eru tilgreind stærri verkefni þar sem stefnan er lögð til grundvallar í uppbyggingu og breytingarferli. Dæmi um það eru Draumaskólinn Fellaskóli þar sem unnið er að innleiðingu nýrra starfs- og kennsluhátta með áherslu á leiðsagnarnám, eflingu máls og læsis, tónlistar og sköpunar.
Þá er stefnan lögð til grundvallar í þróun nýrra skóla eða menntastofnana, s.s. eins og í Vogabyggð og Skerjafirði.
Verið er að undirbúa rafrænt Menntastefnumót sem haldið verður 10. maí. Það verður uppskeruhátíð þess þróunar- og nýsköpunarstarfs sem unnið hefur verið að frá því menntastefnan var samþykkt fyrir tveimur árum. Þá mun svokallaður framtíðarhópur leggja mat á hvernig til hefur tekist við innleiðingu menntastefnunnar síðastliðin ár og leggja fram aðgerðaráætlun fyrir næstu þrjú árin.
Þótt Covid-19 hafi vissulega sett strik í reikninginn í stefnumarkandi aðgerðum í skóla- og frístundastarfi undanfarið ár þá hafa margir áfangasigrar náðst frá því menntastefnunni var hrint í framkvæmd um áramótin 2018/2019. Þar hefur starfsfólk skóla- og frístundastarfs verið í framlínunni með teymisvinnu, nýsköpun og þrautseigju. Má þar m.a. nefna að:
- Meira en 6.500 þátttakendur hafa tekið þátt í námskeiðum og fengið markvissa starfsþróun
- 130 börn af erlendum uppruna hafa tekið þátt í sumarnámskeiði í íslensku
- 25 börn hafa fengið þjónustu í Birtu, stoðdeild fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd
- Meira en 400 verkfæri hafa verið sett inn í verkfærakistu menntavefsins sem auðveldar starfsfólki í skóla- og frístundastarfinu að framfylgja meginþáttum menntastefnunnar.
- 360 fræðslumyndbönd hafa verið útbúin fyrir nemendur og starfsfólk.
- Meira en 200 verkefni hafa fengið þróunar- og nýsköpunarstyrki
- Skólar og frístundamiðstöðvar hafa fengið 125,5 m.kr í styrki vegna þátttöku í 33 alþjóðlegum verkefnum .
- Frá því menntastefnan tók gildi hefur fjölgað umsóknum í allt nám hjá Menntavísindasviði HÍ:
- 32% fjölgun í grunnnám á MVS HÍ alls 980 umsóknir
- 72% fjölgun í leikskólakennaranámi
- 76% fjölgun í kennslufræði yngri barna
- 49% fjölgun í tómstunda- og félagsmálafræði
- Þá hafa 1189 leikskólastarfsmenn fengið námsleyfi til að stunda nám í leikskólafræðum og 34 starfsmenn í frístundastarfinu til að stunda nám í frístundafræðum.
Sjá áfangaskýrslu um innleiðingu menntastefnunnar Látum draumana rætast fyrir árið 2020.