Tilhögun skólastarfs í Fossvogsskóla veturinn 2021-2022 

Skóli og frístund

""

Borgarráð samþykkti í dag tillögu að skipulagi skólastarfs Fossvogsskóla á meðan á framkvæmdum stendur næsta skólaár 2021-2022.

Gert er ráð fyrir að kennsla fyrir 1.-4. bekk muni fara fram í Fossvogi á meðan börn í 5.-7. bekk munu stunda nám í Korpuskóla.

Reykjavíkurborg ákvað í lok maí að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir við Fossvogsskóla eftir að úttekt verkfræðistofunnar Eflu leiddi í ljós að ekki hafi tekist að koma að fullu í veg fyrir rakaskemmdir í húsnæði skólans. 

Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar fyrir starfsfólki skólans og foreldrum á opnum fundum og vinna hófst strax við hönnun og undirbúning framkvæmda. Haldnir voru rýnifundir með starfsfólki og óskað eftir hugmyndum að endurbótum sem myndu bæta skólastarf til framtíðar. Teymi skipað fulltrúum frá Eflu, verkfræðistofunni Verkís og umhverfis og skipulagssviðs hefur umsjón með framkvæmdum. „Við erum þakklát fyrir stuðning starfsfólks og foreldra í þessari vinnu. Skólasamfélagið hefur tekist á við erfiðar aðstæður undanfarin ár með aðdáunarverðum hætti, jákvæðni og hugmyndaauðgi og við erum bjartsýn og fullviss um að þessar framkvæmdir muni bæta skólastarf í hverfinu til frambúðar,” segir Soffía Vagnsdóttir staðgengill sviðsstjóra skóla og frístundasviðs.

Samhliða undirbúningi framkvæmda fór fram ítarleg skoðun á tilhögun skólastarfs fyrir næsta skólaár. Settar voru upp nokkrar sviðsmyndir þar sem tekið var tillit til hugmynda og óska foreldra og starfsfólks og útfærslur skoðaðar út frá sjónarmiðum um námskröfur, samgöngur, öryggismál og aðra áhættuþætti. Sviðsmyndir voru kynntar fyrir starfsfólki og fulltrúum foreldra, kostir og gallar ræddir og nýjar hugmyndir rýndar frekar. 

Tillagan sem samþykkt var í borgarráði í dag gerir ráð fyrir uppsetningu tíu kennslueininga á skólalóð Fossvogsskóla og að þar og í húsnæði Frístundar í Útlandi muni fara fram kennsla fyrir börn í 1.- 4. bekkjum. Börn í eldri bekkjum, 5.-7. munu stunda nám í Korpuskóla þar sem öll aðstaða er til staðar fyrir fjölbreytt skólastarf. Samræður eru framundan við nágranna vegna breytinga á deiliskipulagi í tengslum við tímabundna uppsetningu  einingahúsa fyrir kennslu á skólalóð Fossvogsskóla. Áfram verður unnið að frekara skipulagi skólastarfsins í samstarfi við skólasamfélagið og má búast við frekari upplýsingum á næstu vikum.