Þrjár tilnefningar til íslensku auglýsingaverðlaunanna

Umhverfi Mannlíf

""

Reykjavíkurborg fékk þrjár tilnefningar til íslensku auglýsingaverðlaunanna, tvær í flokki umhverfisauglýsingar og eina í flokki mörkunar. 

 

Endurspeglum mannlífið er nafn yfir umhverfismerkingar í Tryggvagötu á vegum Reykjavíkurborgar og Veitna. Ákveðið var að gleðja vegfarendur á þessu svæði í miðborginni með því að láta hanna speglagirðingu úr plexígleri sem býður upp á að fólk geti leikið sér að endurspegluninni. Auglýsingastofan Tvist hannaði hana og skiltagerðin Merking framleiddi. Vegfarendur hafa nýtt sér þetta og skemmt sér. Kjörið er að nota hashtagið #tryggvagata. Speglaveggirnir voru teknir niður á meðan framkvæmdir lágu niðri en verða settir fljótlega upp aftur. Hér má sjá myndband af speglagirðingunni þar sem fólk er að leika sér með því að taka myndir.

Tilnefningar í flokki Umhverfisauglýsinga 2020 eru fyrir þrívíða grafík eða innsetning í umhverfi, til auglýsinga á vöru og/eða þjónustu. Borgarsögusafn Reykjavíkur fékk einnig slíka tilnefningu en ENNEMM hannaði. Breyttir tímar kölluðu á breyttar nálganir. Þegar gestir gátu ekki sótt söfnin heim ákvað Ljósmyndasafn Reykjavíkur  að færa hluta af safnkosti sínum út til almennings. Sýningin Mynd um hverfi fór fram í aprílmánuði 2020 þegar samkomubann ríkti og ekki mátti safnast saman. Á skýlum og stöndum í öllum hverfum borgarinnar flettust gamlar ljósmyndir úr viðkomandi hverfi sem gáfu tækifæri til að upplifa áhrif tímans á tilveruna og skynja og skoða breytingarnar sem orðið hafa á borgarumhverfinu á aðeins nokkrum áratugum. Mynd um hverfi var einnig tilnefnt í flokknum Viðburðir (í reynd því fjórar tilnefningar í heild).

Reykjavík - Stafræn ásýnd fékk tilfnefningu í flokknum Mörkun. Reykjavíkurborg er á stafrænni vegferð og mikilvægur hlekkur í umbreytingunni  er ný stafræn ásýnd og hönnunarkerfi sem leggur grunn að þeim stafrænu lausnum sem til verða. Markmiðið  er að styrkja og samræma notendaupplifun og ásýnd, samhraða þróun á nýjum veflausnum og tryggja samfellu í allri þjónustuveitingu.

Stafræna umhverfi Reykjavíkurborgar er flókið enda stærsti vinnustaður landsins sem skiptist í margar sjálfstæðar einingar sem sinna gríðarlega fjölbreyttri þjónustu. Einnig vinnur borgin með fjölda verktaka á hverjum tíma. Það mælir því flest með því að staðla og samræma vinnubrögð á þessu sviði til að búa til heildstæða og góða notendaupplifun sem og að auka hagræði í rekstri lausna sem geta skilað okkur verulegum ávinningi á komandi árum.

Hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar, Hanna, er tímamótaverkefni Reykjavíkurborgar og þungamiðjan í stafrænni vegferð borgarinnar. 

Nýr Reykjavik.is er í þróun, og er kominn í beta útgáfu og hönnunarkerfið er útgefið og farið að þjóna sínum tilgangi.