Endurspeglum mannlífið á Tryggvagötu

""

Framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og Veitna á Tryggvagötu ganga vel. Gamall varnargarður fyrir framan Tollhúsið verður varðveittur. Speglagirðing hefur verið sett upp til að gleðja vegfarendur.

Jarðvinna er í fullum gangi. Búið að grafa allt áfangasvæðið í fyrsta áfanga upp eða fyrir framan Tollhúsið og Naustin. Tveir fráveitubrunnar hafa verið pantaðir á staðinn og verður þeim líklega komið niður í næstu viku. Annar verður upp við Geirsgötu og hinn við gatnamót Tryggvagötu/Naustin. Þá verður lögð lögn þar á milli. Verktakinn á þessu svæði er Bjössi ehf.

Fornleifafundur

Fornleifafræðingar og starfsfólk hefur verið á vettvangi. Fornleifafundur hefur þegar komið í ljós eða gamall sjóvarnargarður fyrir framan Tollhúsið. Hægt verður að varðveita hann að hluta undir nýja torginu í götunni. Annar hluti garðsins var illa farinn en var mældur upp og skrásettur.   

 

Speglagirðing

Ákveðið var að gleðja vegfarendur á þessu svæði í miðborginni með því að láta hanna speglagirðingu úr plexígleri sem býður upp á að fólk geti leikið sér að endurspegluninni. Auglýsingastofan Tvist hannaði hana og skiltagerðin Merking framleiddi. Vegfarendur hafa nýtt sér þetta og skemmt sér. Kjörið er að nota hashtagið #tryggvagata. 

 

 

Hér má sjá myndband af speglagirðingunni þar sem fólk er að leika sér með því að taka myndir.

Endurgerð Tryggvagata - upprifjun

Eins og áður hefur komið fram þá liggur þessi áfangi frá endurgerðu Bæjartorgi og Steinbryggju áfram til vesturs að Naustum. Svæðið Svæðið fyrir framan Tollhúsið er sólríkt og þar verður glæsilegt almenningsrými. Naustin verða einnig endurgerð frá Tryggvagötu að Geirsgötu. Árið 2021 er svo áætlað að vinna síðasta áfangann frá Naustum að Grófinni, þeim áfanga lýkur í ágúst 2021.

Framkvæmdin í stuttu máli: 

  • Allt yfirborð gatna verður endurnýjað.
  • Vatns- og fráveitulagnir endurnýjaðar ásamt rafveitu.
  • Gönguleiðir hellulagðar.
  • Gatnamótum lyft upp í sömu hæð og gangstéttar og þau steinlögð.
  • Snjóbræðsla lögð undir gönguleiðir, torg og gatnamót.
  • Sólríkt torg við Tollhúsið.
  • Hjólabogar á svæðinu.
  • Sérstök stæði fyrir hreyfihamlaða og vörulosun.
  • Gatan verður einstefna til vesturs.

Tengill

Kynningar á verkefninu á Tryggvagötu