Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á Orkureitnum við Suðurlandsbraut og Ármúla. Reiturinn breytist úr atvinnusvæði í samgöngumiðað íbúðasvæði með verslun og þjónustu.
Myndir/ALARK arkitektar ehf
Á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar er svokallaður Orkureitur, þar sem gert er ráð fyrir 436 íbúðum, auk um 6170 fermetrum undir atvinnuhúsnæði. Bílakjallari verður undir stórum hluta lóðarinnar. Reitir fasteignafélag, ALARK arkitektar og VSÓ ráðgjöf kynntu ásamt verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa..
Atvinnuhúsnæði á jarðhæðum, íbúðir á efri hæðum
Reiturinn tengir Háaleiti inn í Laugardal í gegnum Orkureitinn. Einnig Skeifuna og Grensásveg yfir í Laugardal. Gert er ráð fyrir að gamla Rafveituhúsið standi áfram ásamt annarri hliðarbyggingunni. Það var hannað af Guðmundi Kr. Kristinssyni og Ferdinand Alfreðssyni og þykir fáguð, vönduð þjónustu- og skrifstofubygging í módernískum anda, og eitt besta dæmi um hönnun skrifstofuhúsnæðis á Íslandi á 20. öld.
Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að Gamla Rafveituhúsið verði í fókus og gönguleiðir og sjónásar liggja að því. Ný uppbygging er í opnu randbyggðarformi þar sem gert er ráð fyrir atvinnuhúsnæði á meirihluta jarðhæða en íbúðum á efri hæðum. Hæðir húsa eru frá þremur og upp í átta hæðir. Gönguleiðir, torg og inngarðar bjóða upp á lifandi svæði innan reitsins, sum fyrir almenning en önnur til sérafnota.
Græn þök og blágrænar ofanvatnslausnir
Í skipulaginu er gert ráð fyrir grænum þökum og gróðri í flestum inngörðum. Gera skal ráð fyrir að minnsta kosti 25% af grunnfleti inngarða sé með jarðvegsfyllingu sem er meira en 60 sm að þykkt til landmótunar og gróðursetningar runnagróðurs auk þess að gera verður ráð fyrir að minnsta kosti 10% af grunnfleti inngarða séu uppreist gróðurker fyrir trjágróður. Gera skal einnig ráð fyrir að minnsta kosti 50% af grunnfleti inngarða verði gróðurþekja og að lágmarki 75% af þökum nýbygginga verði græn þök og er það hluti af sjálfbærum ofanvatnslausnum.
Auðvelt að ganga og hjóla í gegnum svæðið
Staðsetningin er miðsvæðis og við væntanlega Borgarlínustöð. Innan lóðar er gert ráð fyrir göngurýmum og dvalarsvæðum bæði í einkaeign og fyrir almenning. Umferð verður í kringum reitinn en innan hans verður hann greiðfær fyrir gangandi og hjólandi. Hann verður í raun bílfrír og einnig eru áform um að gera Ármúla að þægilegri borgargötu. Það verða m.ö.o. opnar göngu- og hjólatengingar í gegnum reitinn sem er góður kostur fyrir vegfarendur.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagssvæðisins er afrakstur verðlaunasamkeppni sem haldin var árið 2019 þar sem Alark arkitektar báru sigur úr býtum. Meginmarkmið er að stuðla að aðlaðandi borgarumhverfi með fjölbreyttum og sólríkum almenningsrýmum. Byggðin á Orkureitnum á að falla vel að samgöngumarkmiðum í núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur og stuðla að sjálfbærum lifnaðarháttum og betri lífsgæðum.
Aðliggjandi gatnakerfi mun taka breytingum á næstunni í tengslum við væntanlega Borgarlínu.
Skipulagið er umhverfisvottað
Skipulagsreiturinn er í BREEAM communities vottunarferli. Vottunin felur í sér að skipulagið og skipulagsferlið er metið af óháðum en viðurkenndum matsaðila út frá skilgreindum viðmiðum sem byggja á alþjóðlega viðurkenndum markmiðum fyrir vistvæna byggð og sjálfbæra þróun. Orkulíkan hefur verið gert fyrir húsin hvað varðar sól, skugga og vind, flæði umferðar ofl.
Tenglar