Nýsköpun og aldursvænt umhverfi

Velferð Umhverfi

""

Hvernig getur okkar nánasta umhverfi stutt við sjálfstæða búsetu, jafnrétti og lífsgæði, auk þess að tryggja virka og heilbrigða þátttöku í samfélaginu? Leitin að svarinu við þessari spurningu er hluti af stóru evrópuverkefni sem Reykjavíkurborg tekur þátt í með fjölmörgum samstarfsborgum. Tengslanetið sem er að byggjast upp er umfangsmikið því nær sjötíu aðilar frá 38 löndum taka virkan þátt.

„Við leitum leiða til að borgir, hverfi og samfélög séu í takt við félagslegar og líkamlegar þarfir íbúa," segir Roxana Elena Cziker verkefnastýra þróunarverkefna hjá Reykjavíkurborg, en hún og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri skrifstofu öldrunarmála á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar leiða þátttöku borgarinnar í verkefninu. Ásamt þeim vinnur Magnús Yngvi Jósefsson, rannsóknarstjóri hjá Reykjavíkurborg að verkefninu. 

Samstarfsborgirnar vilja miðla þekkingu sín á milli og byggja upp þverfaglegt tengslanet um hvernig best megi byggja upp heilbrigt umhverfi bæði innanhúss og utandyra. Samstarfið grundvallast á nokkrum rannsóknarmarkmiðum:

  • Leita leiða til mögulegrar nýsköpunar stafrænnar heilsutækni fyrir eldri borgara.
  • Draga fram hvernig heilbrigt aldursvænt stafrænt umhverfi bætir lífheilsu eldri borgara. Byggt verður á samstarfi við íbúa, opinbera aðila, fyrirtæki , félagasamtök og rannsóknastofnanir. 
  • Skoða ávinning af tæknilausnum í vinalegri hönnun borga, sveitafélaga, hverfa og bygginga á evrópskum vettvangi.​
  • Hvetja til nýsköpunar og sveigjanleika, samhliða því sem tengslanet og miðlun lausna innan Evrópu er efld. 
  • Byggja upp þekkingu- og gagnagrunna með upp upplýsingum frá stað- eða svæðisbundnum, innlendum og alþjóðlegum aðilum.

Það eru evrópsku samstarfssamtökin um vísindi og tækni, COST - European Cooperation in Science & Technology, sem styrkja verkefnið, sem heitir Net4AgeFriendly eða International Interdisciplinary Network on Smart Healthy Age-friendly Environments.

NET4AgeFriendly er fjögurra ára verkefni sem hófst 21. október 2020 og lýkur 20. október 2024. Samstarfslöndin með Íslandi eru Albanía, Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Bosnía-Hersegóvína, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Ísrael, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Moldóvía , Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Serbía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Holland og Tyrkland.

Hjá Reykjavíkurborg er verkefnið mikilvægur liður í stafrænni vegferð borgarinnar og hluti af markmiðum Græna Plansins. Þar er einkum vísað til markmiða um að allir eigi rétt á aðgengilegri þjónustu og að engin verði skilin eftir í grænni umbreytingu borgarinnar.

Tengt efni: