Mun betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir

Stjórnsýsla Fjármál

Ráðhús Reykjavíkur séð frá Tjarnargötu

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - september 2021 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 25. nóvember. Afkoma samstæðu borgarinnar var jákvæð og umtalsvert betri en áætlað var.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 15.528 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.339 milljónir.  Rekstrarniðurstaðan er því 16.867 milljónum betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Betri rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og áhrifa hækkaðs álverðs frá áramótum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Heildareignir samstæðunnar námu í lok september 757.675 milljónum króna en heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 402.394 milljónir. Eigið fé var 355.281 milljónir en þar af var hlutdeild meðeigenda 13.027 milljónir.  Eiginfjárhlutfallið er nú 46,9% en var 47,0% um síðustu áramót.

Rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, var neikvæð um 5.077 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 7.121 milljónir á tímabilinu. Niðurstaðan er því 2.044 milljónum betri en gert var ráð fyrir.  Frávik frá áætlun skýrist einkum af því að útsvarstekjur voru um 4.819 milljónum króna yfir áætlun en launaútgjöld voru 3.743 milljónum yfir fjárheimildum sem að hluta til má rekja til aðgerða vegna Covid-19.

Útbreiðsla COVID-19 faraldursins og áhrif á heimsvísu eru fordæmalaus og hafa haft mikil fjárhagsleg áhrif á Reykjavíkurborg. Borgin hefur sett fram og endurskoðað með reglubundnum hætti sviðsmyndagreiningar um þróun efnahagsmála sem er liður í virkri áhættustýringu. Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er sterk og hefur hún fjárhagslegan styrk til þess að taka á sig veruleg áföll vegna afleiðinga faraldursins.

Nánari upplýsingar í Kauphöll