Leikskólarnir Brákarborg og Gullborg urðu fyrstir leikskóla í borginni til að fá svokallaða regnbogavottun sem felur í sér að allt starfsfólk hefur fengið fræðslu um hinseginleika og leikskólinn er orðinn hinsegin-vænn vinnustaður.
Regnbogavottun Reykjavíkurborgar byggir á sambærilegum vottunarferlum hjá t.d. Human Rights Campaign, Stonewall UK og RFSL í Svíþjóð þar sem skilyrði eru sett um að stefnur fyrirtækja nefni hinsegin fólk og að réttindi og jöfn staða hinsegin starfsfólks sé tryggð. Til mark um regnbogavottun fá stofnanir og fyrirtæki viðurkenningu og regnbogafána, líkt og leikskólarnir Brákarborg og Gullborg geta nú státað sig af.
Sólrún Óskarsdóttir leikskólastjóri í Brákarborg hvetur alla leikskólastjórnendur til að fá regnbogavottun, fræðslan gagnist öllum, starfsfólki, foreldrum og börnum. „Hér í leikskólanum erum við m.a. búin að leggja mikla vinnu í að breyta kynjum í bókum til að víkka sjónarhorn barnanna. Það skiptir máli að börnin hafi fyrirmyndir í fjölbreyttum fjölskyldum og geti samsamað sig við sögur og annað les- og myndefni í skólanum.„
Meira um regnbogavottun Reykjavíkurborgar.