Íbúar í Bryggjuhverfinu fengu í gær kynningu á vinningstillögunni um sementsturnana við Sævarhöfða. Kynningarfundurinn var haldinn í Hjólaskaupahöllinni þar sem Hjólaskautafélagið Roller Derby hefur komið sér fyrir. Fundargestir lýstu margir hrifningu sinni á vinningstillögunni.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði frá fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu, bæði þeirri stækkun Bryggjuhverfis sem nú er í gangi og einnig sagði hann frá uppbyggingu á Ártúnshöfða og við Elliðaárvoginn.
Talsmenn vinningstillögunnar voru mætt og fóru yfir helstu þætti í henni. Björn Gunnlaugsson hjá Íslenskum fasteignum sagði frá bakgrunni verkefnisins, Sigríður Ósk Bjarnadóttir hjá VSÓ Ráðgjöf fór yfir hönnunartillöguna og sjálfbærar lausnir; Ragna Guðmundsdóttir hjá M/STUDIO lýsti hugmyndum um vaxtarhús – fullu húsi matar og Steinunn Garðardóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands ræddi um borgarræktun í Bryggjuhverfi.
Í fyrirspurnum kom fram almenn ánægja með fyrirhugaðar breytingar á sementsturnunum og vildi fólk vita hvenær farið yrði í framkvæmdir. Ekki hefur verið samið við vinningshafana og því liggja ekki fyrir tímasetningar.
Að kynningum loknum var farið í skoðunarferð um svæðið.