Hvernig sköpum við opið samfélag þar sem engin eru skilin eftir - samfélag fyrir alla byggt á jafnræði og velferð óháð bakgrunni? Hver stendur vörð um grunnréttindi og lífsgæði okkar í lýðræðissamfélagi?
Boðið er til opins samtals milli borgara og fræðasamfélagsins um traust og virka þátttöku borgara til að byggja upp samfélag þar sem allir hafi aðgang að gæðum þess. Málþingið verður haldið þriðjudaginn 26. október nk. kl. 9 – 15 í Borgarbókasafninu Gerðubergi. Þátttaka er öllum opin en skráning er nauðsynleg: Tengill fyrir skráningu.
Fyrirlestrar tengjast lýðræðisvinnustofu á vegum PaCE verkefnis, sem haldin var í byrjun ársins og verða þessi umræðuefni rædd:
- Fjölbreytileiki, samskipti og fjölmenning á tímum breytinga. Þverfagleg nálgun um samskipti, viðnámsþrótt, samfélagsgæði og samfélag fyrir alla.
- Nýsköpun og framlag í opinberri stefnumótun í frjálslyndu lýðræðissamfélagi.
- Popúlismi, pólitísk forysta og hlutverk þeirra í umbreytingu samfélagsins.
Að loknum fyrirlestrum er boðið til umræðu í sal, auk þess sem hægt verður að senda spurningar yfir netið. Fyrirlestrum og umræðu í sal verður streymt. Upptaka verður aðgengileg að málþingi loknu.
Málþingið verður eins og áður segir haldið í Gerðubergi og fellur staðsetningin vel að inntaki þess, því bókasafnið er eitt af fáum innanhúss almenningsrýmum, þar sem við þurfum ekki að réttlæta veru okkar í með nokkrum hætti - opinn vettvangur þar sem allir fá að vera eins og þeir eru og geta tekið þátt í að móta. Á bókasafninu er hægt að brjóta upp innrammaða veruleika, tengja borgarbúa saman og miðla upplýsingum og þekkingu milli ólíkra samfélagshópa í umhverfi sem fólk treystir.
Málþingið er hluti af evrópuverkefninu Populism and Civic Engagement (PaCE) sem skoðar sögulegar og samfélagslegar forsendur popúlistaflokka og greinir jafnframt á milli ólíkra tegunda popúlistaflokka.
Niðurstöðum fylgt eftir
Daginn eftir málþingið í Gerðubergi verður haldin vinnustofa með fulltrúum stjórnvalda og öðrum þeim sem hafa áhrif á mótun samfélagsins til að raungera hugmyndir og tillögur. Unnið verður með niðurstöður frá lýðræðisvinnustofu PaCE sem haldin var í byrjun þessa árs, sem og tekinn púlsinn á umræðu málþingsins deginum áður.
Roxana Elena Cziker, sem stjórnar PaCE verkefninu á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara vonast til að umræða og niðurstöður málþings og vinnustofu muni endurspeglast í mótun stefnu Reykjavíkurborgar. „Við búum í samfélagi ólíkra samfélagshópa með fjölbreytta reynslu, þekkingu og menningu. Hvernig geta stjórnvöld nýtt sér fræðilegar rannsóknir og gagnreyndar aðferðir til stefnubreytinga til að mæta þörfum mismunandi hópa samfélagsins á tímum örra breytinga sem geta auðveldlega grafið undan öryggi íbúa og haft áhrif á traust þeirra til stofnana og stjórnvalda?“ segir Roxana.
Tengt efni:
- Skráning á málþing
- Frétt frá 1. júlí 2021 um niðurstöður frá vinnustofum á liðnum vetri: Hlúa að lýðræði með vinnustofum um popúlisma