Hlúa að lýðræði með vinnustofum um popúlisma

""

Hefur traust almennings til stjórnmála og stjórnsýslu breyst á tímum heimsfaraldurs? Þessi spurning er kjarninn í vinnustofum sem 6 Evrópulönd taka þátt í en það eru Ísland, Spánn, Skotland, Ungverjaland, Pólland og Búlgaría. Vinnustofurnar eru hluti af evrópuverkefninu Populism and Civic Engagement (PaCE) sem  skoðar sögulegar og samfélagslegar forsendur popúlistaflokka og greinir jafnframt á milli ólíkra tegunda popúlistaflokka.

Tilgangur vinnustofanna er að skilja betur viðhorf almennings til stjórnmálaafla og stjórnvalda, skilja áhrif fjölmiðla og sér í lagi samfélagsmiðla á skoðanamyndun almennings. Einnig eru skoðaðar leiðir til að efla lýðræðislega þátttöku borgara, bæði hvernig megi auka gæði lýðræðis og til framtíðar viðnámsþrótt samfélaga til að mæta áskorunum.

Nú hafa fimm slíkar vinnustofur um aðstæður í þátttökulöndunum verið haldnar og um næstu helgi verður sú síðasta haldin í Búlgaríu. Í haust verður svo haldin í Brussel sameiginleg vinnustofa með fókus á Evrópu í heild.

Sérstök ráðstefna verður haldin á Íslandi í október þar sem heildarniðurstöður verkefnisins verða kynntar og gestir fengir til að taka þátt í vinnustofum um afmörkuð efni.

Nauðsyn traustra upplýsinga á tímum samsæriskenninga   

Niðurstöður vinnustofunnar á Íslandi eru nú aðgengilegar á verkefnavef og eru þær helstu þessar:

  • Almenningur ber almennt traust til stjórnvalda.
  • Heilbrigðisyfirvöld njóta traust og almenningur er jákvæður gagnvart viðbrögðum við heimsfaraldri, einkum hvernig byggt var á sérþekkingu fagfólks.
  • Helsta umkvörtunarefni voru óljósar eða óaðgengilegar upplýsingar sér í lagi þegar um er að ræða minnihlutahópa.
  • Sumum fannst skortur á gagnsæi og ósamræmi í málflutningi og aðgerðum stjórnvalda og að betur hefði mátt huga að sérþörfum einstakra samfélagshópa.
  • Þátttakendur bentu á spennu milli þess að vernda borgara fyrir Covid19 veirunni og þess að vernda hagkerfið fyrir afleiðingum faraldursins til dæmis með opnun landsins fyrir ferðamenn.
  • Þá var bent á þörf fyrir meiri samhæfingu skilaboða yfirvalda, sérfræðinga og stofnana.

Þessar niðurstöður benda á mikilvægi skilvirkrar upplýsingamiðlunar á tímum samsæriskenninga, upplýsingaóreiðu og falsfrétta sem oft er vatn á myllu popúlista.

Vinnustofan á Íslandi var haldin í lok janúar sl. og tóku 27 borgarar þátt í henni og voru fulltrúar minnihlutahópa þar á meðal.

Hvaða áhrif hafa popúlistaflokkar á þróun lýðræðis?    

Undanfarin ár hafa popúlistaflokkar verið fyrirferðamiklir í vestrænum samfélögum. PaCE verkefnið hefur unnið að greiningum á sögulegum og samfélagslegum forsendum popúlisma og hefur einnig greint tegundir popúlistaflokka, áherslur þeirra og aðferðir. Mælt er með heimsókn á vefsíðu verkefnisins sem gerir þessari vinnu góð skil.

Populism and Civic Engagement (PaCE) rannsakar sögulegar og samfélagslegar forsendur popúlistaflokka og greinir jafnframt á milli ólíkra tegunda popúlistaflokka. Tilgangur PaCE er að rannsaka ástæður þess að popúlistaflokkar njóta fylgis meðal kjósenda í Evrópu og þá hvaða áhrif það kunni að hafa á þróun lýðræðis og samfélags í álfunni.  PaCE er hluti af Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.

 

Reykjavíkurborg hefur umsjón með skipulagningu og rekstri vinnustofanna í samstarfi við lýðræðishraðlana “The Democratic Society” í Brussel og Citizens.is á Íslandi.

Í Íslenska teyminu eru Roxana Elena Cziker verkefnastýra þróunarverkefna hjá Reykjavíkurborg og Magnús Yngi Jósefsson, rannsóknarstjóri Reykjavíkurborgar. Sérstakur rannsóknarráðgjafi PaCE verkefnisins á Íslandi er Jón Ólafsson, prófessor á hugvísindasviði Háskóla Íslands.

Tengt efni: